Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir veðurofsann sem búist hafi verið við í flestum landshlutum í dag hafa verið ívið minni en spár gerðu ráð fyrir. Búið sé að aflétta óvissustigi á Vestfjörðum og Norðurlandi, en þó séu gular viðvaranir enn í gildi.
„Þetta hefur verið aðeins minna en við bjuggust við, en engu að síður hefur þessi mikli vindur sem er yfir landinu verið að troða sér niður við fjöll. Þetta eru búnir að vera mjög staðbundnir strengir sem hafa verið öflugir, en ég hef ekki frétt af afleiðingum eða tjóni eða slíku,“ segir Birta.
Að sögn Birtu hefur óstöðugleiki verið í kortunum, sem geri það að verkum að tímasetningar hafi verið rokkandi. Samkvæmt öllu eigi veðrið að mestu leyti að ganga niður á öllu landinu í kringum miðnætti.
„Það er hins vegar útlit fyrir leiðinlegu veðri á morgun. Það verður suðvestan allhvass vindur og él um sunnan og vestanvert landið. Mögulega finnur fólk í höfuðborginni meira fyrir veðrinu á morgun heldur en í dag,“ segir Birta.
„Við erum að búast við þessu köflótta veðri áfram þar sem annan daginn er rigning og hinn daginn snjókoma með tilheyrandi slabbi og hálku. Það getur orðið lélegt skyggni og fólk getur þurft að taka fram sköfurnar og skafa bílana,“ bætir hún við.
Þá séu landsmenn ekki lausir við vonskuveður í vikunni.
„Við erum sérstaklega að horfa á þriðjudaginn, en eins og spárnar líta út núna getur þetta orðið mjög slæmt. Við höfum gefið út gular veðurviðvaranir á öllu landinu á þriðjudaginn út af éljagangnum sem er væntanlegur,“ segir Birta.