„Þetta hús er lítill gullmoli,“ segir Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, sem er að selja eina tvöfalda steinbæinn sem eftir stendur í Reykjavík. Hægt er að skoða myndir af húsinu inn á fasteignavef Vísis.

Steinbærinn Stórasel er á Holtsgötu 41b og stendur þar innan um ný og gömul fjölbýlishús. Bærinn er með hlaðna grágrýtisveggi. Var vestari burstin byggð 1884 en sú austari 1893.

Reykjavíkurborg eignaðist Stórasel að fullu með 14 milljóna króna greiðslu árið 2012 og hafði þar með keypt húsið í tveimur áföngum. Ekki fengust upplýsingar í gær frá borginni um hver heildarkostnaðurinn var við kaupin. Borgin afsalaði bænum til Minjaverndar árið 2014 gegn því að félagið gerði húsið upp fyrir eigin reikning.

Ásett verð á húsinu er 89,5 milljónir króna. Þorsteinn segir að kostnaður Minjaverndar við endurbætur á Stóraseli sé hins vegar um 130 milljónir króna. Frá byrjun var vitað að söluverðið myndi ekki duga fyrir þeim útgjöldum og situr félagið því uppi með tapið. Að sögn Þorsteins tapar Minjavernd á sumum verkefnum en hagnast á öðrum og leitast við að koma út á sléttu.

Stórasel er endurgert sem íbúðarhús og er 146 fermetrar auk nokkurra fermetra undir súð á efri hæðum þannig að heildargrunnflöturinn er að sögn Þorsteins ríflega 160 fermetrar. Húsið hefur verið á sölu frá því í lok október. „Afraksturinn hefur ekki orðið mikill enn þá,“ segir hann um viðtökurnar. Engin bein tilboð hafi borist.

„Húsið stendur í dag náttúrlega inni í randbyggð umlukt hærri húsum og sjálfsagt setja einhverjir það fyrir sig en svo býr fólk svo sem líka í fjölbýlishúsum og sér ekkert nema inn um gluggann hjá náunganum oft,“ segir Þorsteinn spurður hvort staðsetningin fæli ef til vill hugsanlega kaupendur frá.

Þorsteinn segir að vissulega þurfi Minjavernd nauðsynlega að selja Stórasel til að losa fjármagn í önnur verkefni. Hann er bjartsýnn. „Þetta er æði vandað og vel í það lagt til allrar endurgerðar frá a til ö. Við höfum fulla trú á því að þetta hús muni seljast með hækkandi sól, þegar bankar fara að opna dyrnar betur aftur og markaðurinn fer í gang í framhaldi af því.“

Húsið er að sjálfsögðu friðað og segir Þorsteinn að vilji væntanlegir eigendur leggja í breytingar séu þær háðar samþykki húsafriðunarnefndar.

„Núverandi ráðaaðilar þar eru svo sem þess sinnis að það hafi lítið upp á sig að vera að friða hús ef það má ekki nota þau til einhvers. Það var mikil guðsgjöf þegar menn áttuðu sig á því,“ segir framkvæmdastjóri Minjaverndar.