Náttúru­auð­lindir eru ýmiss konar en málmar, kol og olía koma oft upp í hugann. Norð­menn kalla olíu Svarta gullið, sem jafn­framt er titill á einni Tinna­bókanna, en þar snýr Tinni á glæpa­menn sem á­sælast eyði­merkur­olíu.

Þótt út­flutningur á svörtum vikri sem byggingar­efni hafi verið reyndur hér á landi telst hann varla dýr­mæt auð­lind, líkt og jarð­hiti, vatns­orka og ein­stakar náttúru­perlur. Ó­snortin náttúra aflar okkur ekki að­eins mikil­vægra tekna heldur er hún líkt og tungu­málið ó­rjúfan­legur hluti af þjóð­ernis­vitund okkar. Í Bárðar­dal er sér­lega fal­leg lind­á, Svart­á, sem með réttu má kalla svart gull. Hún á upp­tök í Svart­ár­vatni, en neðar rennur í hana blá­tær Suður­á frá Suður­ár­botnum. Síðan renna þær sam­einaðar sem Svart­á norður í jökul­litað Skjálfanda­fljót. Líf­ríki þessara risa­stóru lind­áa er ein­stakt en í þeim þrífst ekki að­eins ein­angraður stofn urriða heldur einnig mikið fugla­líf. Straum­önd sést víða en einnig hús­önd sem annars er sjald­séð utan Mý­vatns og Lax­ár í Aðal­dal. Svart­á og Suður­á minna ein­mitt á Laxá og eru eins og hún vin­sælar veiði­ár. Þar ræður miklu ó­venju­stór urriðinn sem til­heyrir ein­stökum ein­angruðum stofni og þekkja má á túrkis­bláum bletti aftan við augað.

Grósku­mikið um­hverfið spillir heldur ekki fyrir og gaman er að ganga með fram ánni beggja vegna, til dæmis frá brúnni yfir í Stórutungu. Ganga má fram á Hamarinn yfir Svart­ár­gil og jafn­vel alla leið að Svart­ár­vatni. Ekki þarf heppni til að sjá endur synda um í straum­þungu vatninu milli ár­hólma við undir­leik mó­fugla sem halda til við bakkana. Í fjarska sést í Dyngju­fjöll og Trölla­dyngju austan Sprengi­sands. En það eru svört ský sem ógna Svart­á og um­hverfi hennar. Svart­ár­virkjun er á teikni­borðinu en með því að stífla ána verður upp­eldis­stöðvum ein­staks stofns urriða rústað og til­vist hús­andar­stofnsins í ánni ógnað. Auk þess munu virkjana­mann­virki minnka að­dráttar­afl göngu­leiða. Þetta er ekki fyrsta að­förin að þessum fal­legu ám því á áttunda ára­tugnum stóð til að veita þeim með skurðum í Mý­vatn sem nýta átti sem miðlunar­lón fyrir virkjanir í Laxá. Fyrir frækna bar­áttu þing­eyskra bænda voru þau á­form stöðvuð og stífla í ofan­verðri Laxá sprengd í skjóli nætur. Í dag þætti al­gjör firra að breyta Mý­vatni í miðlunar­lón, enda náttúru­perla á heims­mæli­kvarða. Enn er hægt að bjarga Svart­á frá fall­öxi virkjunar, enda ó­skyn­sam­legt að kveikja í tunnu fullri af svörtu gulli – og það þegar of­gnótt er af raf­magni.

Urriðinn í Svartá er bæði stór og skartar bláum augnskugga.
Mynd/Pálmi Gunnarsson