Guðlaugur Hermannsson verður ekki oddviti Frjálslynda lýðræðisflokksins í Suðvesturkjördæmi eins og til stóð. Fram kom í fjölmiðlum í gær að Guðlaugur hefði verið ákærður fyrir umfangsmikil svik úr Ábyrgðasjóði launa.

Héraðssaksóknari ákærði átta manns fyrir svikin en Guðlaugi er gefið að sök að hafa reynt að telja starfsmönnum sjóðsins trú um að hann hefði verið starfsmaður hjá fyrirtæki sem varð gjaldþrota og ætti inni vangoldin laun upp á ríflega 7,7 milljónir króna.

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, segir málið afar leiðinlegt en að öflug manneskja muni taka sæti Guðlaugs sem oddviti flokksins í kjördæminu.

„Málið er þess eðlis að Guðlaugur getur ekki setið áfram í oddvitasætinu. Guðlaugur sá það sjálfur og hefur tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir kjöri á Alþingi," segir Guðmundur Franklin og bætir við: „Það kemur maður í manns stað og við höfum fengið öflugan einstakling í oddvitasætið,“ segir Guðmundur Franklín en flokkurinn býður fram í fyrsta sinn í haust.