Vaxandi norðanátt er í dag með rigningu fyrir norðan og austan, en slyddu og snjókomu til fjalla. Færð getur því orðið varasöm á fjallvegum þegar líður að kvöldi. Einnig má búast við mjög snörpum vindhviðum undir Vatnajökli í dag, svo vegfarendur þar ættu að fara varlega, einkum ef farartækin eru viðkvæm fyrir vindi. Spáð er hita á bilinu 3 til 8 stig fyrir norðan en allt að þrettán gráðum syðra þegar best lætur, að því sem fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofunnar.

Gular veðurviðvaranir víða um land

Gular veðurviðvaranir eru í gildi víða um land næstu þrjá sólarhringa. Í dag hafa verið gefnar út gular viðvaranir fyrir Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og eystra, Miðhálendinu, Austurland að Glettingi og Austfirði þar sem von er á norðaustan hvassviðri með rigningu og snjó til fjalla. Útlit er fyrir því að snjóþekja geti myndast á fjallvegum með hálku og erfiðum akstursskilyrðum. Á Suðausturlandi, frá og með hádegi, er spáð norðan stormi í vindstrengjum nærri Vatnajökli. Þar eru einnig varasöm akstursskilyrði.

Líkt og fyrr segir eru viðvaranar í gildi næstu þrjá daga. Á föstudaginn hefur verið gefin út viðvörunum fyrir allt Ísland þar sem von er á norðvestanhvassviðri með slyddu og snjókomu um land allt.

Varað við skriðuföllum og grjóthruni

Mikið hefur rignt á norðanverðum Ströndum og við norðanvert Djúp síðustu tvo daga. Vatnavextir eru meðal annars í Skjaldfannardal og Kaldalóni og mikið vatn er í Hvalá í Ófegsfirði og Selá í Steingrímsfirði.

Spár gera ráð fyrir áframhaldandi úrkomu á svæðinu fram til kvölds hið minnsta. Vatnavöxtum og úrkomu getur fylgt aukin hætta á grjóthruni og skriðuföllum í hlíðum þar sem mest rignir. Kólna mun á morgun og viðbúið að úrkoma muni þá að mestu falla sem snjór.