Gular viðvaranir hafa verið gefnar út víða á landinu vegna hvassviðris eða storms. Viðvaranirnar taka gildi strax í dag á Norður- og Norðvesturlandi en í nótt á Norðausturlandi og Suðausturlandi. Búast má við vindhviðum sem ná allt að 40 metrum á sekúndu.

Hvassviðrið hefst í Breiðafirði í dag og tekur gul viðvörun gildi þar klukkan 16. Þar er spáð suðvestan 13 til 20 metrum á sekúndu með hviðum að 35 metrum á sekúndu. Þar verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferð.

Þá sækir veðrið norðar í kvöld og bætast við gular viðvaranir á Vestfjörðum klukkan 18 og síðan á Ströndum og Norðurlandi vestra klukkan 21. Þar er spáð svipuðu hvassviðri og í Breiðafirði; rigningu, um 20 metrum á sekúndu og hviðum að 35 metrum á sekúndu á Vestfjörðum en þær gætu náð allt að 40 metrum á sekúndu á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Veðurstofa Íslands

Í nótt, klukkan þrjú, skellur svipað hvassviðri á á Norðurlandi eystra en líklegt er þó að þar haldist þurrt. Þá tekur gul viðvörun loks gildi á Suðausturlandi klukkan sex í fyrramálið og veðrið þar svipað og í hinum landshlutunum þar sem viðvörun er í gildi. Þar er alls staðar er varað við aðstæðum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Stormurinn helst svo nánast allan morgundaginn en gul viðvörun fellur fyrst úr gildi á Breiðafirði klukkan 16 á morgun. Þá á Vestfjörðum klukkan 23 um kvöld og annars staðar ekki fyrr en á föstudag.

Nánari upplýsingar um hvassviðrið má finna hér.