Gular við­varanir tóku gildi á Suður- og Suð­austur­landi í morgun vegna hvass­viðris eða storms. Gert er ráð fyrir 18 til 25 metrum á sunnan­verðu landinu en á ein­hverjum svæðum gætu vind­hviður farið upp í 35 metra á sekúndu.

Við­vörun fyrir Suð­austur­land tók gildi klukkan fimm í morgun og verður hún í gildi til klukkan níu í kvöld. Hvass­viðrið færðist svo einnig yfir á Suður­landið klukkan níu í morgun en þar verður gul við­vörun í gildi til klukkan ellefu í kvöld.

Búist er við hvössum vind­hviðum, sem fyrr segir, víða á svæðinu og þá helst undir Eyja­fjöllum og í Ör­æfunum. Hviður við Ör­æfin eru sagðar geta verið hættu­legar fyrir veg­far­endur með aftan­í­vagna eða þá sem eru á öku­tækjum sem taka á sig mikinn vind. Fólk er því hvatt til að sýna að­gát og eru allir í­búar Suður- og Suð­austur­lands hvattir til að ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Á morgun er búist við mun hægari vindi á sunnan­verðu landinu eða fimm til tíu metrum á sekúndu. Á Norðan­verðu landinu er spáð rigningu eða jafn­vel slyddu í dag og á morgun.

Vindaspá Veðurstofunnar klukkan 18 í kvöld.
Skjáskot/Veðurstofa Íslands