Hæglætisveður er í kortunum framan af degi í dag en búist er við að það versni töluverður þegar líður að kvöldi. Eftir hádegi kemur lítið lægðardrag upp að suðausturströndinni með snjókomu á Suðausturlandi og á Austfjörðum.

Seinnipartinn fer suðaustanátt vaxandi og búist er við 15 til 23 metrum á sekúndu. Spáð er snjókomu suðvestantil í kvöld, en síðar slyddu og rigningu eftir því sem hlýnar í nótt.

Akstursskilyrði erfið

Gular viðvaranir taka gildi víðast hvar á landinu frá hálf átta til tíu í kvöld. Veðurviðvarirnar gilda almennt fram að nóttu en vara fram undir morgun á Austfjörðum og suðausturlandi. Erfið akstursskilyrði verða í þar sem viðvaranir eru í gildi.

Skilin ganga yfir landið í kvöld og nótt með hvassviðri og snjókomu í flestum landshlutum. Hiti verður á bilinu eitt til átta stig, mildast með suðurströndinni. Kólnar smám saman síðdegis með skúrum eða éljum, en léttir til norðaustanlands.

„Á þriðjudagsmorgun verður orðið frostlaust um allt land með rigningu, en suðvestlægari vindur og kólnar smám saman undir kvöld með skúrum og slydduéljum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. Í fyrramálið snýst síðan í allhvassa suðvestanátt með skúrum og hægt kólnandi veðri.