Á morgun er spáð suðaustan stormi víðs vegar um landið og hafa gular og appelsínugular veðurviðvaranir verið settar í gildi á öllu landinu. Veðrið gæti verið varasamt vegfarendum.
„Lægðin er væntanleg að Hvarfi í fyrramálið og sendir hún skil yfir landið með stormi eða roki, talsverðri rigningu og hlýnandi veðri.
Samhliða þessu er varað við auknum líkum á krapaflóðum á Suðurlandi á morgun.
Þá er enn er töluverður snjór í giljum víða á Suðurlandi og skapast aðstæður fyrir krapaflóð þegar afrennsli og úrkoma í miklu vatnsveðri leitar niður gil og lækjarfarvegi,“ segir í færslu Veðurstofu Íslands á Facebook.
Einnig er bent á að vaxið getur í ám og lækjum vegna úrkomu á suður- og vestur helmingi landsins og vegna hnjúkaþeys fyrir norðan.
Í ábendingu frá veðurfræðingi hjá Vegagerðinni segir hann líkur sé á skafrennigi og blint verði á Sandskeiði og Hellisheiði frá því um klukkan átta í fyrramálið.
Á Reykjanesbraut er spáð 28 til 30 metrum á sekúndu með vatnsveðri frá klukkan ellefu.
Spáð mjög miklu hvassvirðri yfir daginn á Vesturlandi, Vestfjörðum og Vestan til á Norðurlandi. Þá hlánar en krapi á fjallvegum.
Vegfarendur er hvattir til að fylgjast með færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.
Fréttin hefur verið uppfærð.