Haustið mun minna hressi­lega á sig um nær allt land um helgina og eru gular við­varanir í gildi víða. Að­eins Suður­land, Suð­austur­land og Aust­firðir sleppa við við­vörun að þessu sinni.

Það fer að hvessa þegar líður á morgun­daginn og tekur fyrsta við­vörunin gildi á Vest­fjörðum klukkan 17 á morgun. Varað er við suð­vestan hvass­viðri eða stormi og rigningu en búist er við suð­vestan 18 til 23 metrum á sekúndu og vind­hviðum víða yfir 30 metrum á sekúndu.

Svipað verður uppi á teningnum í öðrum lands­hlutum, til dæmis á höfuð­borgar­svæðinu þar sem gul við­vörun tekur gildi klukkan 21 annað kvöld. Búist er við suð­vestan hvass­viðri eða stormi og rigningu þar og er von á suð­vestan 15 til 23 metrum á sekúndu. Eins og á Vest­fjörðum geta vind­hviður farið yfir 30 metra á sekúndu. Við­vörunin rennur úr gildi klukkan sex að morgni sunnu­dags.

Veður­stofan hvetur fólk til að ganga frá lausa­munum eins og garð­hús­gögnum og trampólínum.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á sunnu­dag:
Snýst í norðan og norð­vestan hvass­viðri eða storm, en lægir vestan­til eftir há­degi og bætir í vind fyrir austan. Slydda eða snjó­koma á Norður- og Norð­austur­landi, en þurrt annars staðar. Hiti 1 til 10 stig. Dregur úr vindi og úr­komu um kvöldið.

Á mánu­dag:
Norð­vestan hvass­viðri við austur­ströndina, en mun hægari annars staðar. Víða bjart og hiti 2 til 9 stig yfir daginn, mildast Sunnan- og Vestan­lands.

Á þriðju­dag, mið­viku­dag og fimmtu­dag:
Aust­læg eða breyti­leg átt og úr­komu­lítið. Hiti 3 til 10 stig að deginum.