Gul við­vörun er í gildi á Vest­fjörðum þar sem varað er við hvass­viðri eða stormi í dag sem lægir ekki fyrr en eftir há­degi á morgun. Ó­vissu­stig vegna snjó­flóða­hættu er enn í gildi á svæðinu. Enn eru nokkrar líkur á sjávar­flóðum um sunnan- og austan­vert landið fram af degi.


Við­vörunin tók gildi klukkan 9 í morgun og er vind­hraðinn 15-23 m/s en hvassast er á fjall­vegum. Búast má við tals­verðri snjó­komu og skaf­renningi, lé­legu skyggni og versnandi aksturs­skil­yrðum.


Ó­vissu­stig vegna snjó­flóða­hættu hefur verið í gildi síðan á föstu­dag og hafa nokkur fleka­hlaup fallið á Vest­fjörðum og Norður­landi. Enn er ekki talin hætta í byggðum en Veður­stofan fylgist grannt með stöðu mála í sam­ráði við Al­manna­varnir.

Gular við­varanir taka einnig gildi á Ströndum og Norður­landi vestra og Breiða­firði í kvöld. Þar verður norðan­hvass­viðri eða stormur og er varað við akstri öku­tækja sem verða ó­stöðug í vindi. Sér­stak­lega varar Veður­stofan við versnandi skyggni á Holta­vörðu­heiði og Bröttu­brekku í kvöld. Við­vörunin á Ströndum og Norður­landi vestra fellur úr gildi klukkan 8 í fyrra­málið en rétt eftir há­degi á Breiða­firði.


Þá eru enn nokkrar líkur á sjávar­flóðum á sunnan­verðu landinu í dag þar sem enn er lágur loft­þrýstingur við landið og mikið öldu­rót og brim. Sjór flæddi á land á Reykja­nesi í fár­viðrinu á föstu­dag og olli tals­verðum skemmtum í Garði í Suður­nesja­bæ og við Ægis­götu í Kefla­vík.