Veðurstofan hefur gefið út gular veðurviðvaranir fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði og miðhálendi vegna hvassviðris eða storms. Taka flestar þeirra gildi um hádegi á morgun en klukkan 15 á Faxaflóa.

Þar er spáð sunnan hvassviðri, 13 til 20 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll sem geta náð 25 til 35 m/s.

Á Breiðafirði má gera ráð fyrir sunnan hvassviðri eða stormi, 15 til 23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25 til 35 m/s, sérstaklega á Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er spáð sunnan hvassviðri eða stormi, 15 til 23 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll, 25 til 35 m/s, sérstaklega á heiðum og við Ísafjarðardjúp.

Á miðhálendi má búast við sunnan stormi, 18 til 25 m/s með hvössum vindstrengjum við fjöll 30 til 40 m/s, einkum norður af jöklunum.

Að sögn Veðurstofunnar verður varasamt fyrir ökutæki á þessum svæðum sem taka á sig mikinn vind. Jafnframt er varað við varasömum aðstæðum fyrir ferðamenn og útivistarfólk á miðhálendinu.