Gular við­varanir hafa verið gefnar út af Veður­stofunni fyrir höfuð­borgar­svæðið, Suður­land, Suð­austur­land og Vest­firði þar sem búast má við miklu hvass­viðri eða stormi.

Klukkan þrjú síð­degis á morgun tekur gildi við­vörun fyrir Suður­land og fylgja hinar fast á eftir. Snjó­komu eða élja­gangi með skaf­renningi með lé­legu skyggni og versnandi aksturs­skil­yrðum er spáð á Suður­landi, Suð­austur­landi og á Vest­fjörðum. Þetta getur haft í för með sé truflanir á sam­göngum og vega­lokanir.

Veðrið getur skapað hættu fyrir öku­tæki sem taka á sig mikinn vind og hvetur Veður­stofan fólk til að fara var­lega og ganga frá lausa­munum til að fyrir­byggja tjón.

Gul við­vörun tekur gildi á höfuð­borgar­svæðinu klukkan 16 og stendur til þrjú um nóttina. Spáð er austan hvass­viðri eða stormi og 18 til 23 metrum á sekúndu á Kjalar­nesi. Vind­hviður gætu þó náð 28 til 33 metrum.

Suður­land

Á Suður­landi verður við­vörun í gildi frá klukkan 15 til mið­nættis. Þar er spáð austan storms, 20 til 25 metrum. Getur vindur náð allt að 28 metrum en annars staðar á bilinu 18 til 25 metrum. Gera má ráð fyrir afar snörpum vind­hviðum við fjöll, allt að því 35 metrum.

Suð­austur­land

Búast má við austan stormi eða roki á Suð­austur­landi þar sem gul við­vörun tekur gildi klukkan 18 og stendur til 4 á mánu­dags­morgun. Spáð er hvass­viðri eða stormi og verður vindur á bilinu 20 til 28 metrar. Snarpar vind­hviður gætu orðið við fjöll, allt að því 35 metrar á sekúndu, þá helst í Ör­æfum. Búast má við snjó­komu með lé­legu skyggni og versnandi aksturs­skil­yrðum.

Vest­firðir

Á Vest­fjörðum tekur gul við­vörun gildi klukkan 16 og gildir til 6 á mánu­dags­morgun. Veður­stofan spáir hvass­viðri eða stormi og gæti vind­hraði orðið á bilinu 18 til 23 metrar. Við fjöll er hætta á hvössum vind­strengjum sem geta farið í allt að 30 metra á stöku stað. Þar er fólki bent á að gæta sín á slæmu skyggni og erfiðum aksturs­skil­yrðum.

Landið allt

Veður­stofan spáir vaxandi austan­átt á landinu öllu á morgun, 10 til 18 metrum víða eftir há­degi en vind­hraða á bilinu 18 til 23 metrum með fram suður­ströndinni. Hiti verður um frost­mark, snjó­koma og slydda en um­tals­verð rigning á landinu sunnan­verðu síð­degis og gæti hiti náð allt að 8 gráðum á þeim slóðum. Annað kvöld er spáð vaxandi vind við suður­ströndina.