Enn ein lægðin fer yfir landið á morgun og þriðju­dag og hafa gular við­varanir verið gefnar út um allt land nema á höfuð­borgar­svæðinu. Ó­vissu­stig vegna snjó­flóða­hættu er í gildi á Vest­fjörðum.


Sú lægð sem nú er yfir norð­vestan­verðu landinu gengur niður undir mið­nætti en heldur á­fram á Vest­fjörðum. Búið er að lýsa yfir ó­vissu­stigi þar vegna snjó­flóða­hættu og er víða ó­fært.


Næsta lægð kemur svo aftur fyrir há­degi á morgun og eru gular við­varanir í gildi á Breiða­firði, Ströndum og Norður­landi vestra frá klukkan 11 á morgun. Frá klukkan 13 á morgun verða einnig við­varanir í gildi á Faxa­flóa og mið­há­lendinu og seinni partinn nær stormurinn inn á Suður­land.


Búast má við mjög snörpum vind­hviðum annað kvöld á Faxa­flóa sér­stak­lega við Hafnar­fjall, á Kjalar­nesi og á sunnan­verðu Snæ­fells­nesi. Vindurinn nær allt að 25 m/s og verður þar ekkert ferða­veður. Vind­hviður ná þá allt að 28 m/s á Suður­landi og mið­há­lendinu seinni partinn á morgun.


Höfuð­borgar­svæðið sleppur þá við við­varanir og á það traustum vini að þakka: Esjunni sjálfri sem skýlir svæðinu fyrir norðan­áttinni. Veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands segir þó í sam­tali við Frétta­blaðið að alltaf verði ein­hverjir blettir í borginni sem njóta ekki skjóls frá Esjunni en heilt yfir sleppi höfuð­borgar­búar betur en aðrir.


Á að­fara­nótt þriðju­dags ná svo við­varanirnar yfir allt landið nema höfuð­borgar­svæðið en veðrið gengur niður á há­degi þann daginn á mið­há­lendinu og Suður­landi.


Á Breiða­firði, Vest­fjörðum, Ströndum og Norður­landi vestra nær vindur 20-28 m/s með éljum og skaf­renningi þangað til við­vörunin fellur úr gildi á mið­nætti, að­fara­nótt mið­viku­dags. Miklar líkur eru á sam­göngu­truflunum þar og er ekkert ferða­veður.