Á morgun eru gular við­varanir í kortunum á Suður­landi, Faxa­flóa, Breiða­firði, Vest­fjörðum, Austurlandi, Norðurlandi eystra og vestra. Ýmist er búist við snörpum vind­hviðum, slyddu og snjó. Veður­fræðingur segir að það slái jafn­vel í storm á morgun.

„Það hvessir í kvöld og nótt, hvöss austan átt og slær jafn­vel í storm á morgun,“ segir Óli Þór Árna­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands.

Víðast hvar er búist við miklu hvass­viðri og varar Veður­stofa öku­tæki sem eru við­kvæm fyrir vindi að vera á ferðinni.

„Á morgun verður víðast slydda og snjó­koma. Eftir há­degi mun lík­legast rigna á sunnan­verðu landinu,“ segir Óli.

Á morgun má reikna með gulum viðvörunum um mest allt land.
Mynd/Veðurstofa Íslands