Veðurstofan spáir suðvestanátt 10-18 m/s í dag, en 15-23 m/s NV-til á landinu og 20-25 m/s þar í kvöld og fram eftir nóttu. Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og Breiðafirði. Það verður þurrt og bjart veður austanlands, en annars él.
Á morgun verða víða suðvestan 8-15 m/s og él sunnan- og vestantil á landinu, en skýjað með köflum og úrkomulítið NA-lands. Hiti verður í kringum frostmark að deginum.
Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að fram yfir helgi megi búast við snjókomu eða éljum víða um land en að í dag séu vorjafndægur, þannig að dagurinn sé orðinn jafn langur og nóttin. Því sé vonandi stutt í vorið.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Suðvestan 8-15 m/s, en 15-23 í fyrstu NV-lands. Víða léttskýjað á NA- og A-landi, annars él. Hiti kringum frostmark.
Á föstudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-8 og dálítil él, en vaxandi V-átt um kvöldið. Hiti breytist lítið.
Á laugardag: Sunnan 10-15 og slydda eða snjókoma, en úrkomulítið NA-lands. Hiti kringum frostmark.
Á sunnudag: Snýst í norðvestanátt með snjókomu eða éljum N-til á landinu, en rofar til sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig við S-ströndina, annars 0 til 5 stiga frost.
Á mánudag: Sunnanátt, skýjað og fer að rigna S- og V-lands. Hlýnandi veður.
Á þriðjudag: Suðvestanátt og él, en þurrt og bjart veður A-lands. Hiti 0 til 5 stig.
Færð á þjóðvegum
Vetrarfærð og éljagangur er víðast hvar á vestan- og norðanverðu landinu og frekar hvasst, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Austan- og norðaustanlands er hins vegar víða greiðfært.
Höfuðborgarsvæðið: Hálkublettir eru á öllum leiðum og eitthvað um éljagang.
Suðvesturland: Hálka eða hálkublettir víðast hvar og éljagangur á flestum leiðum.
Vesturland: Allvíða hálkublettir eða hálka en snjóþekja á Bröttubrekku og á Holtavörðuheiði.
Vestfirðir: Snjóþekja eða hálka víðast hvar. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði en þæfingsfærð á Þröskuldum.
Norðurland: Hálka víða í Húnavatnssýslum en hálkublettir og éljagangur í Skagafirði og í Eyjafirði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Öxnadalsheiði.
Norðausturland: Vegir eru víðast hvar greiðfærir en hálkublettir eru á Fljótsheiði sem og á Möðrudalsöræfum vestan Vopnafjarðarafleggjara.
Austurland: Hálka er á Vatnsskarði eystra en annars eru vegir mikið til auðir.
Suðausturland: Hálka eða hálkublettir frá Vík og austur í Öræfasveit en greiðfært er frá Kvískerjum að Höfn.
Suðurland: Hálka eða hálkublettir eru víða í uppsveitum en hálkublettir víða á þjóðvegi 1. Hálka er á Reynisfjalli.