Gular viðvaranir vegna veðurs eru áfram í gildi víða á landinu þar sem búast má við hvassviðri eða stormi.

Er slík viðvörun í gildi fyrir Norðurland eystra, Suðausturland, Vestfirði, Breiðafjörð, Strandir og Norðurland vestra. Mun vindur þar mælast á bilinu 10 til 20 m/s og geta hviður náð allt að 35 m/s.

Telst veðrið á þessum svæðum vera varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind en viðvaranirnar gilda flestar fram á morgundaginn.

Rignir með köflum í flestum landshlutum

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að í dag sé spáð sunnan- og suðvestanátt, 13 til 18 m/s á landinu og verður hún víða ansi stíf og hviðótt, einkum um landið norðan- og norðvestanvert.

Búist er við talsverðu úrkomumagni á Vesturlandi, en annars rignir með köflum í flestum landshlutum. Hiti víðast á bilinu 10 til 15 stig, en útlit fyrir að lengst af verði þurrt á Austurlandi í bjartviðri og hita að 23 stigum.

Næstu daga er áfram spáð vætu um um vestanvert landið, en þurrt og hlýtt norðaustantil. Um miðja næstu viku er útlit fyrir austanátt með kólnandi veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:
Suðlæg átt 5-10 og rigning eða súld með köflum á vestanverðu landinu, en hægari vindur og léttskýjað austantil. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt og yfirleitt bjart, en gengur í suðaustan 5-10 og líkur á smá vætu suðvestantil seinnipartinn. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Hæg austlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og dálítil væta sunnantil, en þurrt og bjart fyrir norðan. Hiti víða 13 til 19 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt og lítilsháttar vætu á víð og dreif. Heldur kólnandi.