Gul veðurviðvörun er í gildi á Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og á Norðurlandi vestra.

Á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra er spáð suðvestan stormi, 15-23 metrum á sekúndu og éljagangi með takmörkuðu eða lélegu skyggni. Varað er við hvössum vindstrengjum við fjöll, éljahríðunum og versnandi akstursskilyrðum.

Á Breiðafirði og Faxaflóa verður suðvestan hvassviðri 13-20 metrar á sekúndu og éljagangur. Snarpar vindhviður í éljum og lélegt skyggni og þar af leiðandi versnandi akstursskilyrði.

Veðurstofan spáir annars suðvestan 13-20 metrum á sekúndu í dag, en heldur hvassara norðvestan til. Víða él, en léttskýjað austanlands. Fer aðeins að lægja í kvöld og dregur úr vindi og úrkomu.

Suðvestan kaldi eða stinningskaldi á morgun, en hægari sunnanlands. Léttskýjað á austanverðu landinu, annars skýjað og dálítil él fyrri part dags. Hiti 0 til 5 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt, 5-10 metrar á sekúndu og dálítil slydda eða rigning sunnan og vestanlands en úrkomulítið í öðrum landshlutum fram eftir degi. Snýst í norðaustan átt með snjókomu norðan og austan til um kvöldið. Hiti 0 til 6 stig en vægt frost um kvöldið.

Á miðvikudag:
Austlæg átt, 5-13 metrar á sekúndu. Styttir upp norðan og austanlands um morguninn en rigning eða súld suðvestan til og dálítil snjókoma á Vestfjörðum. Frost 0 til 5 stig, en 0 til 5 stiga hiti sunnan- og vestanlands.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Suðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og yfirleitt þurrt en lítilsháttar úrkoma við vesturströndina. Hiti 0 til 6 stig að deginum, en allvíða næturfrost.