Gul veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir Suður- og Suðausturland á morgun. Má þar gera ráð fyrir hvassviðri eða stormi, 15 til 23 m/s fram eftir degi og staðbundið yfir 35 m/s, til að mynda við fjöll og undir jöklum.

Fremur hægur vindur verður í dag, austlæg eða breytileg átt 3 til 8 m/s. Bjart með köflum norðaustanlands og stöku síðdegisskúrir, en skýjað og úrkomulítið í öðrum landshlutum.

Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi. Vaxandi austanátt á Suðausturlandi og annesjum norðaustanlands í kvöld.

Á morgun nálgast djúp lægð úr suðri. Henni fylgir stíf austan- og norðaustanátt, en hvassviðri eða stormur suðaustanlands fram eftir degi. Rigning um allt land og talsverð eða mikil úrkoma á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á laugardag:
Suðaustan 8-13 m/s um landið A-vert, annars hægari vindur. Bjart með köflum NA-lands, talsverð rigning á SA-landi og dálítil væta í öðrum landshlutum. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast NA-lands.

Á sunnudag:
Breytileg átt 5-13 og rigning eða skúrir, en hægari vindur V-lands. Hiti 8 til 14 stig.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðlæg eða breytileg átt og skúrir. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðaustlæg átt og dálítil rigning N-lands, en líkur á skúrum um landið S-vert. Hiti 5 til 14 stig, hlýjast SV-til.