Veðurstofan spáir norðaustan 8-15 m/s í dag. Það á að vera dálítil rigning með norðurströndinni, en talsverð eða mikil rigning á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þar styttir upp seinnipartinn. Sunnan- og vestantil á landinu á að vera úrkomulítið.

Í nótt og í fyrramálið eiga að vera norðaustan 13-18 m/s norðvestantil en annars 8-15 m/s. Það lægir svo um allt land síðdegis á morgun og það verður rigning á köflum, en þurrt að kalla suðvestanlands. Hiti verður 5 til 13 stig.

Gul viðvörun er í gildi til hádegis vegna veðurs á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þar verður talsverð eða mikil rigning og það má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.

Hlaupið í Múlakvísl er í rénum, en enn er mikið vatn í ánni og er fólk hvatt til þess að sýna aðgát í nágrenni við hana.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Norðaustan 8-13 m/s og súld eða rigning með köflum norðan- og austantil, en yfirleitt léttskýjað sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á fimmtudag:

Norðaustan 8-13 m/s, súld eða rigning á Vestfjörðum en rigning, jafnvel talsverð, norðan- og austantil. Líkur á slyddu eða snjókomu til fjalla um kvöldið. Bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag:

Norðaustan 5-10 m/s og skýjað með köflum, en dálítil rigning með norðurströndinni og snjókoma til fjalla. Hiti 1 til 7 stig.

Á laugardag og sunnudag:

Austlæg átt og bjartviðri, en lengst af skýjað og dálítil úrkoma af og til á norðaustanverðu landinu. Hiti 1 til 6 stig að deginum.

Á mánudag:

Austlæg átt og rigning austan- og suðaustantil en annars bjart með köflum og úrkomulaust. Hlýnar lítið eitt.