Gul viðvörun verður í gildi á Suðurlandi í kvöld frá klukkan 20:00 til klukkan 11 á morgun vegna austan storms.

Austanátt 15 til 25 metrar á sekúndu og hvassast austanstil. Veðurstofa Íslands spáir snörpum vindviðum við fjöll; yfir 35 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli.

Þegar er farið að hvessa og segir Vegagerðin að vindhviður undir Eyjafjöllum séu að slá í 30 metra á sekúndu.

Ökumenn eru beðnir um að gæta varúðar en þetta getur skapað varasöm akstursskilyrði, einkum fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Víða flughált

Á Austurlandi er varað við hálkublettum á fjallvegum. Hálka og skafrenningur er á Fjarðarheiði og snjóþekja á Vatnsskarði eystra, Öxi og Breiðdalsheiði.

Sama gildir á Norðausturlandi; hálka og hálkublettir og sumstaðar éljagangur. Krapi er á Sandvíkurheiði og þæfingsfærð á Hellisheiði eystri.

Norðurland: Hálka og éljagangur á Öxnadalsheiði.

Vestfirðir: Hálkublettir eru á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Hálfdán.