Fyrsta haustlægðin er komin til landsins. Gul veðurviðvörun er á stórum hluta landsins en á Austur- og Norðurlandi hafa þær verið uppfærðar í appelsínugular. Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að öflug fyrirstöðuhæð sé suður í hafi og að í dag muni lægð fara yfir frá Grænlandi, frá vestri til austurs.

„Veður í september hefur fram að þessu hefur verið rólegt og því verður veðrið um helgina mikil viðbrigði og mikilvægt að láta það ekki koma sér á óvart. Íbúar á landinu eru hvattir til huga að sínu nærumhverfi og gera ráðstafanir. Til dæmis þarf að koma sumarhúsgögnum í skjól sem og öðrum hlutum sem geta fokið,“ segir veðurfræðingur og að það megi búast við miklum sviptingum um helgina og „óveður í tveimur þáttum“.

Í dag verður vaxandi vindur og undir kvöld verður víða suðvestan hvassviðri eða stormur. Hæðin beinir til okkar mjög hlýjum og rökum loftmassa. Það má því búast við þungbúnu veðri og súld eða rigningu. Á austanverðu landinu verður hærra undir skýin og þurrt að mestu, þar gæti hitinn farið yfir 20 stig í hnjúkaþey.

Í nótt gera spár ráð fyrir að áðurnefnd lægð verði stödd fyrir norðan land og búin að dýpka mjög. Þá má búast við vestan stormi víða á landinu. Eftir það fikrar hún sig lengra til austurs og dregur þá kalt heimskautaloft yfir landið og það snögg kólnar.

Á Norður- og Austurlandi má búast við rigningu nærri sjávarmáli, en slyddu eða snjókomu á heiðum og til fjalla. Sunnan og vestanlands verður hins vegar þurrt og bjart veður. Á austurhelmingi landsins má búast við mikilli veðurhæð á morgun, útlit er fyrir norðvestan storm eða rok með hættulegum vindhviðum og engu ferðaveðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Gengur í norðvestan storm eða rok, en mun hægari vindur á vestanverðu landinu. Hættulegar vindhviður á Suðausturlandi og Austfjörðum. Rigning nærri sjávarmáli á Norður- og Austurlandi, en slydda eða snjókoma á heiðum og til fjalla. Bjartviðri sunnan- og vestanlands. Hiti í byggð frá 2 stigum í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 10 stig syðst á landinu.

Á mánudag:

Breytileg átt 3-8 m/s á vesturhelmingi landsins, en norðvestan 13-20 austanlands fram eftir degi. Víða þurrt og bjart veður og hiti 2 til 8 stig.

Á þriðjudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-10. Skýjað og lítilsháttar væta norðan- og austanlands, en smáskúrir sunnan heiða. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast sunnanlands.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hæg austlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar væta sunnan- og austanlands, en þurrt annars staðar. Hiti 5 til 10 stig að deginum.

Á föstudag:

Ákveðin austanátt og þurrt að kalla, en dálítil væta á sunnanverðu landinu. Hiti breytist lítið.