Gul veður­við­vörun er í gangi á Suður­landi, Suð­austur­landi, á höfuð­borgar­svæðinu og á Vest­fjörðum. Sam­kvæmt spá Veður­stofunnar gengur fyrst niður veðrið á Vest­fjörðum, eða um há­degis­bil í dag, en síðast á Suð­austur­landi eða seint í nótt.

Í hug­leiðingum veður­fræðings í dag segir að það sé að hvessa á landinu með úr­komu og að það verði leiðinda­veður víða á landinu í dag og í kvöld.

Um há­degis­bil má gera ráð fyrir austan strekkingi eða all­hvössum vindi víðast hvar, en stormur með suður­ströndinni. Það má einnig búast við úr­komu um mest­allt land. Nokkuð víða verður slydda eða snjó­koma og hiti ná­lægt frost­marki, en seinni­partinn hlýnar á sunnan­verðu landinu og þá verður væntan­lega rigning á lág­lendi á þeim slóðum og allt að sjö til átta stiga hiti.

Þá kemur fram að aksturs­skil­yrði á fjall­vegum geti orðið erfið í dag og í kvöld og færð gæti jafn­vel spillst á sumum þeirra. Þeim sem hyggja á ferða­lög er ráð­lagt að kynna sér að­stæður áður en lagt er af stað.

Í kvöld hvessir enn frekar í verstu strengjunum við suður­ströndina, en lægir á þeim slóðum þegar kemur fram á nóttina.

Út­lit er fyrir heldur skárra veður á morgun. Þá er spáð austan strekkingi með ringingu um mest­allt land og allt að 10 stiga hita sunnan­lands. Vest­fjarða­kjálkinn sker sig hins vegar úr á morgun með verra veðri, þar er spáð norð­austan hvass­viðri eða stormi með slyddu.

Nánar á vef Veðurstofunnar og vef Vegagerðarinnar.

Veður­horfur á landinu næstu daga

Á þriðju­dag:

Norð­austan 13-20 m/s. Rigning eða slydda norðan- og austan­lands, en snjó­koma á þeim slóðum undir kvöld. Rigning með köflum sunnan heiða, en styttir upp seinni­partinn. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar er líður á daginn.

Á mið­viku­dag:

Norðan 8-15 m/s og él, en létt­skýjað sunnan- og vestan­lands. Hiti um eða rétt yfir frost­marki. Lægir síð­degis og frystir víða um kvöldið.

Á fimmtu­dag:

Vest­læg eða breyti­leg átt, 3-8 m/s. Skýjað og þurrt að kalla suð­vestan­til, hiti 1 til 5 stig. Bjart­viðri um landið norðan- og austan­vert með vægu frosti.

Á föstu­dag:

Suð­lægar átti með vætu, einkum á sunnan­verðu landinu. Hlýnar í veðri.

Á laugar­dag (fyrsti vetrar­dagur):

Út­lit fyrir fremur hæga breyti­lega átt með rigningu á víð og dreif.