Veðurfræðingar vara nú við hvassviðri sem stefnir á austurhluta Kanaríeyja. Mun gul viðvörun taka gildi á miðnætti í kvöld og vara fram til miðnættis annað kvöld.

„Verið á verði og fylgist með nýjustu veðurspám,“ segir á vef Accuweather sem vitnar í spá Veðurstofu Spánar. Fólki kunni að vera fyrir meiðslum og léttar skemmdir að verða á eignum, sérstaklega á opnum stöðum þar sem skjóls njóti ekki.

Búist sé við að vindhraðinn nái 70 kílómetra hraða á klukkustund. Það samsvarar 20 metrum á sekúndu. Í gamla íslenska vindstigakerfinu eru það átta og upp undir níu stig. „Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert,“ segir um aðstæður í átta vindstigum á Vísindavef Háskóla Íslands. Hið síðast upptalda þarf þó ekki að óttast á Tenerife.

Íslendingur sem er staddur á Tenerife og Fréttablaðið ræddi við nú fyrir hádegi kvaðst ekkert hafa heyrt af því að hvassviðri væri á vændum.

Veðurstofa Spánar spáir hvassviðri á næsta sólarhring yfir suðurhluta Kanaríeyja og þar með talið á Tenerife.