Veður­stofa Ís­lands hefur gefið út gula við­vörun á suður­landi en búist er við hvass­viðri eða stormi á suð­vestur­ströndinni næstu tvo daga. Að sögn Helgu Ívars­dóttur, veður­fræðing á Veður­stofunni, mun vindur fara vaxandi í nótt og þykkna mun upp. Hvass strengur verður við suð­vestur­ströndina og vestur að Grinda­vík og einnig má gera ráð fyrir að hvasst verði á Kjalar­nesi.

„Fólk á ferðinni er beðið að hafa varann á, þá aðal­lega þeir sem eru með bíla sem eru við­kvæmir fyrir hvössum vindi,“ segir Helga í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún segir veðrið ekki koma til með að ganga yfir landið heldur er um að ræða stað­bundinn storm. „Þetta veður bara syðst á landinu en það er ekki fyrr en seint á þriðju­daginn sem fer að lægja.“ Gul viðvörun er í gildi frá klukkan tíu á morgun fram á þriðjudag klukkan þrjú.

Veturinn ekki væntan­legur á næstu dögum

Svalt veður er í dag og fann­hvít jörð hefur tekið yfir höfuð­borgar­svæðið. Það mun þó hlýna næstu daga þar sem aust­lægar áttir eru væntan­legar út vikuna. „Hitinn ætti að vera um og yfir frost­marki, það er engin vetrar­spá sem stendur,“ segir Helga að lokum.

Svalt er í dag en búist er við að það hlýni í veðri næstu daga.
Fréttablaðið/Ernir