Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir að fjórir faraldrar séu í gangi í samfélaginu núna. Kórónuveiran, RS-veiran, inflúensa og streptókokkar hafa lagt fjölmarga í rúmið að undanförnu.
Morgunblaðið ræðir við Guðrúnu og greinir frá því að fyrir helgi hafi þrettán einstaklingar legið inni á Landspítala með kórónuveiruna, þar af einn á gjörgæslu. RS-veiran og inflúensan hafi einnig haft sín áhrif en inflúensan virðist þó vera á niðurleið. Hár toppur kom í lok árs og tveir stofnar hafa verið í gangi, A og B.
„B hefur núna verið að færa sig upp á skaftið. Það gerist stundum að það kemur annar toppur af B þannig að við höfum auga með því, en eins og er hefur inflúensan verið á niðurleið,“ segir Guðrún við Morgunblaðið.
Streptókokkar af grúppu A hafa einnig verið áberandi á þessu ári og segir Guðrún að bakterían geti valdið alvarlegum sýkingum. Hefur hún fengið veður af því að meira sé um innlagnir hjá börnum og fullorðnum vegna alvarlegra sýkinga, til dæmis þegar streptókokkasýking fer í brjósthol, blóð eða vöðva. „Það eru mjög alvarlegar sýkingar,“ segir hún.