Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi lauk í gær og hlaut Guðrún Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Kjöríss flest atkvæði í fyrsta sæti. Þingmaðurinn Vilhjálmur Árnason lenti í öðru sæti á lista flokksins en hann sóttist eftir fyrsta sætinu. Alls greiddu atkvæði 4.647 manns og lauk talningu atkvæða seint í gærkvöldi. Gildir seðlar voru 4.533 og auðir og ógildir 114.
Þau sem Fréttablaðið ræddi við fyrir prófkjörið sögðu annan brag á prófkjörsbaráttu Sjálfstæðismanna en oft áður. Meiri samstaða og samvinna hafi verið á milli frambjóðenda. Þeir hafi ferðist jafnvel saman um kjördæmið og nýtt kosningaskrifstofur hver hjá öðrum.
Guðrún var sögð njóta yfirgnæfandi stuðnings austan Markarfljóts en viðmælendur blaðsins voru hins vegar sammála um að úrslitin gætu ráðist í Reykjanesbæ þar sem langflestir kjósendur eru.
Niðurstaða kosninganna var eftirfarandi:
1. sæti Guðrún Hafsteinsdóttir með 2.183 atkvæði
2. sæti Vilhjálmur Árnason með 2.651 atkvæði í 1. – 2. sæti.
3. sæti Ásmundur Friðriksson með 2.278 atkvæði í 1. – 3. sæti.
4. sæti Björgvin Jóhannesson með 1.895 atkvæði í 1. – 4. sæti.
5. sæti Ingveldur Anna Sigurðardóttir með 2.843 atkvæði í 1. – 5. sæti.
6. sæti Jarl Sigurgeirsson með 2.109 atkvæði.
