Guðrún Hafsteinsdóttir, framkvæmdarstjóri Kjörís, gefur kost á sér til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer í maí. Hún tilkynnti þetta á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Hveragerðis í gærkvöldi.

„Ég vil hafa áhrif á þróun samfélagins og því býð ég mig fram í fyrsta sæti“ segir meðal annars í tilkynningu frá Guðrúnu um framboðið. Guðrún er búsett í Hveragerði og hefur starfað nær allan sinn starfsferil hjá fyrirtæki fjölskyldunnar, Kjörís.

„Ég vil hafa áhrif á þróun samfélagins og því býð ég mig fram í fyrsta sæti.“

Etur kappi við Pál og Vilhjálm

Tveir sitjandi þingmenn flokksins sækjast einnig eftir oddvitasæti í kjördæminu: Oddvitinn sjálfur, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason sem tilkynnti um sitt framboð á dögunum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá menn kjörna í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum en auk þeirra Páls og Vilhjálms er Ásmundur Friðriksson þingmaður kjördæmisins.

Situr í stjórnum fjölmarga fyrirtækja

Í tilkynningu um framboðið kemur fram að Guðrún er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, B.A gráðu í mannfræði frá HÍ 2008 og hefur lokið diplóma námi í jafnréttisfræðum einnig frá HÍ.

Guðrún hefur alla tíð verið virk í félagsmálum. Hún hefur setið í bæði fræðslunefnd og skipulags- og umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar sem fulltrúi D-listans og þá á hún sæti í sóknarnefnd Hveragerðiskirkju. Árið 2004 stofnaði hún Sunddeild Íþróttafélagsins Hamars og var formaður deildarinnar til 2014.

Síðast liðinn áratug hefur Guðrún setið í stjórnum margra fyrirtækja og félaga. Hún var kjörin formaður Samtaka iðnaðarins árið 2014 og var þar formaður til 2020. Þá hefur hún einnig átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskóla Reykjavíkur, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Guðrún er fædd 9. febrúar 1970 og er dóttir hjónanna Laufeyjar Valdimarsdóttur og Hafsteins Kristinssonar. Guðrún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup, gullsmið og eiga þau samtals sex börn.