„Ég þóttist viss um það að sá stuðningur, sú vel­vild og sá hlý­hugur sem ég hef notið undan­farin fjögur ár hyrfi ekki á svip­stundu þegar dragi að for­seta­kjöri,“ sagði Guðni Th. Jóhannes­son sem hefur verið endur­kjörinn for­seti Ís­lands. Þegar talin hafa verið um 60 þúsund at­kvæði er Guðni með um 90% at­kvæða og fátt sem getur komið í veg fyrir stór­sigur.

Guðni ræddi við Sig­ríði Haga­lín Björns­dóttur á RÚV nú um mið­nættið og þar ræddi hann meðal annars um kosningarnar og kosninga­bar­áttuna.

Liðin tíð að forseti fá ekki mótframboð

„Ég gekk til þessara kosninga bjart­sýnn og kapp­samur, vildi taka þær al­var­lega eins og vera ber þegar kjós­endum stendur til boða að nýta sinn rétt. Ég ber mikla virðingu fyrir þessum þætti em­bættisins að bjóða sig fram á nýjan leik,“ sagði Guðni sem bætti við að vissu­lega hefði sagan verið á þá leið að for­setar fengu að sitja ó­á­reittir – eða því sem næst – uns þeim fannst tími til að nýr tæki við em­bættinu. Em­bættið hafi þróast með árunum, eins og sam­fé­lagið allt, og telur Guðni að nú sé liðin sú tíð að for­seti fái ekki mót­fram­boð. Breytir þá engu hversu vel eða illa lands­mönnum hefur þótt hann standa sig.

Guðni kvaðst sáttur við bar­áttuna og sam­skiptin við mót­fram­bjóðandann, Guð­mund Frank­lín Jóns­son. „Já, meira og minna. Auð­vitað er það svo að sumir vilja styðja sinn mann með ráðum og dáð og missa sig jafn­vel í því, segja eitt­hvað sem hefði betur verið ó­sagt og sjá jafn­vel eftir því.“

Þá sagði hann það vissu­lega vera svo að auð­veldara sé að láta ein­hvers­konar fúk­yrði falla nú þegar við höfum sam­fé­lags­miðla og at­huga­semda­kerfi og stundum sé of langt gengið. „En þetta er líka ein­hvers­konar öryggis­ventill í okkar sam­fé­lagi. Fólk á og má segja hug sinn en mér finnst alltaf betra að fólk geri það af ein­urð en ekki fúk­yrða­flaumi.“

Reiði er ekki góður förunautur

Sig­ríður Haga­lín spurði hvort Guðni hefði ein­hvern tímann reiðst í bar­áttunni og svaraði Guðni því játandi.

„Já, þegar mér finnst ó­mak­lega að mér vegið. Að ég tali nú ekki um þegar ó­mak­lega er vegið að þeim sem standa manni nærri þá reiðist ég. En reiði er ekki góður föru­nautur, reiði má aldrei ná tökum á manni. Allra síst þeim sem gegnir þeirri stöðu sem ég hef gegnt í fjögur ár og gegni nú nær örugg­lega á­fram næstu fjögur ár. Maður þarf að sýna stillingu og kapp­kosta frekar að láta þá til­finningu efla sig til frekari dáða og svo er það stundum bara þannig að sumu er best ó­svarað. Þá hugsar maður bara þögnin og skömmin geymir þá best.“

Þegar Guðni var spurður hvort hann væri að vísa í um­ræðuna um störf eigin­konu hans, Elizu Reid, svaraði Guðni því játandi.

Klopp ákveðin fyrirmynd

Guðni var svo spurður hvort lands­menn mættu eiga von á því að hann myndi breytast í em­bætti. Það hefði til dæmis átt við Ólaf Ragnar Gríms­son sem varð meira af­gerandi eftir því sem leið á for­seta­tíð hans. Guðni sagði að það væri annarra að segja til um það þegar þar að kæmi, en tók þó sér­stak­lega fram að það væri ekki endi­lega besti leið­toginn sem lætur mikið á sér bera, leitar á­taka, neitar að viður­kenna að honum hafi orðið á eða kennir öðrum um þegar eitt­hvað mis­ferst.

Guðni nefndi í þessu sam­hengi Jur­gen Klopp, þjálfara Liver­pool sem varð Eng­lands­meistari í vikunni í fyrsta skipti í 30 ár. Guðni tók fram að hann héldi ekki með Liver­pool en sagðist sam­gleðjast á­hang­endum liðsins. Sagði hann að Klopp hefði sýnt að hann gæti borið á­byrgð en um leið sýnt auð­mýkt. Hann tók þó skýrt fram að hann væri ekki að bera saman í­þróttir, sem eru leikur, við lífsins al­vöru; stjórn­mál, em­bætti for­seta eða sam­fé­lagið í heild.

„Að geta verið kapp­samur, kurteis, fullur festu en líka mýktar, þannig eru góðir leið­togar og þannig vona ég að mér auðnist að verða nú þegar önnur fjögur ár taka við.“