Átta af hverjum tíu sem taka afstöðu í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið eru ánægðir með störf Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta Íslands.

Alls reyndust 57 prósent svarenda mjög ánægð með störf forsetans og 23 prósent frekar ánægð. Tæp fjórtán prósent segjast hvorki ánægð né óánægð. Aðeins 6,5 prósent eru óánægð með störf forsetans.

„Ég sinni bara mínum störfum eftir bestu samvisku og bestu getu og er auðvitað þakklátur fyrir að njóta velvildar og stuðnings fólksins í landinu. Blessunarlega hafa Íslendingar yfirleitt verið sáttir við sinn þjóðhöfðingja þótt þeir hafi ekki allir verið steyptir í sama mót, eða kannski vegna þess,“ segir Guðni um niðurstöður könnunarinnar.

Guðni tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann gæfi áfram kost á sér í embætti forseta. Komi einhver mótframboð verða forsetakosningar haldnar laugardaginn 27. júní en nýtt kjörtímabil hefst þann 1. ágúst.

Dómsmálaráðuneytið fékk á fjárlögum 398 milljóna aukaframlag vegna mögulegra kosninga.

Ekki reyndist marktækur munur á ánægju með störf forsetans eftir aldri. Konur eru ívið ánægðari en karlar og íbúar á höfuðborgarsvæðinu aðeins ánægðari en íbúar á landsbyggðinni. Þá eykst ánægja með störf Guðna með hærri menntun og auknum tekjum.

Sé litið til stjórnmálaskoðana skera kjósendur Miðflokksins sig úr en 37 prósent þeirra eru óánægð með störf forsetans og 34 prósent ánægð.

Mest ánægja með störf forsetans mælist hjá stuðningsfólki Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en 95 til 97 prósent þeirra eru ánægð. Athygli vekur að meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar mælist engin óánægja.

Ánægjan reynist svipuð meðal stuðningsfólks Framsóknar, Pírata og Sósíalistaflokksins, eða 85-86 prósent, og 71 prósent hjá Sjálfstæðismönnum.

Könnun Zenter sem er netkönnun var gerð á tímabilinu 10. til 15. janúar. Í úrtaki voru 2.170 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var 52 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.