Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti Alþingi rétt í þessu. Meðal þess sem Guðni fjallaði um í ræðu sinni var kjörbréfamálið, bólusetningar og stjórnarskráin.

Guðni forseti sagði í ræðu sinni að við þingsetningu fyrir ári hefði hann lýst þeirri von um að unnt yrði að taka hófsamar tillögur að breytingum á stjórnarskrá til efnislegrar afgreiðslu og leiða umræður til lykta í þingsalnum. Það hafi hins vegar ekki gerst.

„Þess í stað réðust örlög stjórnarskrárfrumvarps í einhverju nefndaherbergi hér handan Austurvallar,“ sagði Guðni forseti og bætti við að hann vonaðist til þess að það gengi betur á þessu kjörtímabili. Meðal þess sem þyrfti að skoða væri umhverfi, auðlindir, íslensk tunga auk breytinga á þjóðhöfðingja kafla stjórnarskrárinnar.

Þá sagði Guðni forseti jafnframt að verkefni Alþingis næstu daga bentu einnig til þess að í fleira mætti rýna.

Þegar Guðni hafði lokið máli sínu bauð hann starfsaldursforseta þingsins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, að ganga til forsetastóls sem hún gerði stórglæsileg íklædd íslenska þjóðbúningnum.