Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, halda til Grænlands á morgun í opinbera heimsókn en tengsl Íslands og Grænlands eru í brennidepli hjá forsetanum þessa dagana.

„Já, við hlökkum til að sækja næstu nágranna okkar heim, í þessu mikla landi þeirra með öllum þeim tækifærum og áskorunum sem þar bíða í óráðinni framtíð,“ segir Guðni í Facebook færslu sinni í dag.

Guðni tók á móti börnum frá Grænlandi á Bessastöðum fyrir helgi. Hópurinn kom til landsins til að læra að synda og kynnast um leið íslensku samfélagi. Börnin eru á ellefta ári og koma frá bænum Tasiilaq auk minni þorpa á austurströnd Grænlands þar sem engar sundlaugar eru.

Forseti átti einnig fund fyrir helgi með Árna Gunnarssyni, Sigrúnu Lilju Guðbjartsdóttur og Vilhelm Má Þorsteinssyni frá Grænlensk-íslenska viðskiptaráðinu. Rætt var um tækifæri og horfur í viðskiptum við Grænland, ekki síst á sviði útvegs, byggingaframkvæmda og ferðaþjónustu, auk leiða til að gera Ísland að vænlegum áfangastað milli Grænlands og umheimsins.

Guðni Th. ásamt leikaranum Manu Bennett.
Mynd/Facebook

„Síðustu dagar hafa verið helgaðir merkum málefnum.

Guðni segir í færslu sinni síðustu daga hafa verið helgaða merkum málefnum:

„Í gær var alþjóðlegi Alzheimerdagurinn, holl brýning um að hlúa vel að fólki með heilabilun og aðstandendum þeirra, og leggja áherslu á leitina að lækningum og meðferðum.“

Minnist hann einnig á fjölmennt loftslagsverkfall síðastliðinn föstudag og bíllausa daginn sem er í dag. Einnig lét Guðni sig ekki vanta á tónleika Mezzoforte í Háskólabíó né Miðgarðshátíðina sem haldin var í Kópavogi. Hitti forsetinn þar leikarann Manu Bennett sem þekktur er fyrir túlkun sína á Azog, orkaforingjanum í Hobbitanum.

Guðni segir „afar gaman var að prófa tölvuleikinn sem liðsmenn Myrkurs vinna að þótt fáum sögum fari af afrekum mínum þar.“
Mynd/Facebook