Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og eiginkona hans, Eliza Reid, áttu í dag fund með varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, og eiginkonu hans í Höfða. Forsetahjónin voru með regnbogalitað armband hinsegin fólks um úlnliði sína á fundinum.

Á myndinni sést armband Elizu greinilega. Mynd af vef embættis forseta Íslands.

Víða um borgina hafa regnbogafánar verið dregnir á húna í dag og tóku öll fyrirtækin í kringum Höfða sig til og flögguðu regnbogafánanum. Enginn hefur lýst uppátækinu sem beinum mótmælum við komu Pence en hafa fyrirtækin sagt daginn í dag vera „góðan til að fagna fjölbreytileikanum“.

Pence er afar umdeildur stjórnmálamaður en hann hefur til að mynda látið þau orð falla að Guðs vilji sé að koma í veg fyrir samkynhneigð hjónabönd og sagt þau slæm fyrir samfélagið. Hann hefur þá einnig skrifað undir frumvarp sem bannaði fóstureyðingar en það var síðar stöðvað af alríkisdómara.

Guðni hefur frá árinu 2017 borið perlað armband frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Eliza var einnig með það armbandið á sér í dag en á myndum má sjá að hún er líka með annað armband um úlnlið sinn í regnbogalitunum.

Erfitt er þó að koma auga á regnbogaarmband Guðna á myndum af fundinum. Perluarmband Krafts má sjá greinilega á myndum en svo virðist sem hið regnbogalita armband sitji fast ofarlega á hendi forsetans og því hylur skyrtuermi hans það á myndum. Við stækkun myndar sem ljósmyndari Fréttablaðsins náði í dag af Guðna og Pence að takast í hendur má þó greinilega sjá glitta í regnbogalitina undir skyrtuerminni.

Við stækkun myndarinnar kemur regnbogalitað armbandið í ljós undir skyrtuermi forsetans.
Fréttablaðið/Ernir