Guðni Th. Jóhannesson er fæddur í Reykjavík þann 26. júní árið 1968. Einn þriggja sona Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara, sem lést aðeins 42 ára árið 1983, og Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns. Bræður Guðna eru Jóhannes kerfisfræðingur og Patrekur, handknattleiksþjálfari og fyrrum landsliðsmaður. Sonur Patreks er rapparinn Jói Pjé.

Bræðurnir ólust upp í kaþólskum sið í Garðabænum. En síðar á lífsleiðinni sagði Guðni skilið við söfnuðinn, vegna slælegra viðbragða kirkjunnar við kynferðisafbrotum presta.

Mikil afköst

Guðni gekk í MR og útskrifaðist þaðan árið 1987. Á menntaskólaárunum var hann í keppnisliði skólans í Gettu Betur.

Guðni útskrifaðist með BA-gráðu frá Háskólanum í Warwick árið 1991, í sagnfræði og stjórnmálafræði. Hélt síðan sagnfræðináminu áfram í Háskóla Íslands, Oxford og loks Queen Mary í Lundúnum, þar sem hann lauk doktorsnámi.

Áður en Guðni var kjörinn forseti starfaði hann sem kennari við sagnfræðideild Háskóla Íslands. Fyrst sem stundakennari, þá lektor, dósent og loks prófessor. Einnig hefur hann kennt við Háskólann í Reykjavík og á Bifröst.

Guðni hefur skrifað margar fræðibækur, meðal annars um þorskastríðin, bankahrunið og búsáhaldabyltinguna og forsetatíð Kristjáns Eldjárn. Hann skrifaði ævisögu Gunnars Thoroddsen og þýddi fjórar bækur Stephen King.

Rannsóknir og skrif Guðna um símhleranir og njósnir á Íslandi á kaldastríðsárunum vöktu mikla athygli en einnig hefur hann meðal annars rannsakað stuðning Íslands við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna og forsetaembættið.

Kjörinn forseti

Í nýársávarpi árið 2016 tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson að hann hygðist ekki bjóða sig fram til forseta Íslands á nýjan leik. Þar til hann endurskoðaði ákvörðun sína, 18. apríl, höfðu 16 manns tilkynnt um framboð en Guðni var ekki einn af þeim. Í kjölfarið drógu margir framboð sitt til baka, en þann 5. maí tilkynnti Guðni um framboð.

Voru þá fram komnar upplýsingar um aflandsfélagaeign Dorr­it Moussaieff, eiginkonu Ólafs. Í fyrstu skoðanakönnuninni eftir það mældist Guðni með tæp 60 prósent og þann 9. maí dró Ólafur framboðið til baka. Níu frambjóðendur voru í forsetakosningunum og var Guðni kjörinn sjötti forseti lýðveldisins með 39 prósentum atkvæða.

Tvær stjórnarmyndanir

Stuðningurinn rauk upp eftir að Guðni var svarinn í embætti og hefur ánægja með störf hans mælst mjög mikil á kjörtímabilinu. Í könnun frá desember 2016 mældist ánægja með Guðna 97 prósent.

Róstusamt var í íslenskum stjórnmálum á þessum tíma og þegar könnunin var gerð hafði Guðni þegar komið að einni stjórnarmyndun, þegar Sjálfstæðismenn, Viðreisn og Björt framtíð mynduðu stjórn með minnsta mögulega þingmeirihluta. Aftur þurfti Guðni að koma að stjórnarmyndun ári síðar, þegar sú stjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna sem nú situr var mynduð.

Alþýðlegur og hrokalaus

Guðni hefur aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk og hefur einblínt á að vera fulltrúi allrar þjóðarinnar. Þó hefur hann eindregnar skoðanir á hlutverki forseta, svo sem hvað synjunarvaldið varðar, og hefur einnig blandast inn í deilumál.

Meðal þess er mál tengt tveimur kynferðisbrotamönnum sem fengu uppreista æru. Guðni skrifaði undir ákvörðun ráðuneytisins, en hefur síðan viðurkennt að hafa brugðist. Bað hann þolendur mannanna afsökunar og var því komið til leiðar að lögin um uppreista æru féllu úr gildi.

Annað mál rataði í heimspressuna, en af léttari toga. Í heimsókn í MA spurði nemandi hann um ananas sem álegg á pizzu. Sagðist Guðni vilja sjá lagasetningu þar sem þetta yrði bannað. Vakti þetta meðal annars viðbrögð Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada þaðan sem ananaspizzan er upprunnin.

FB-Ernir200603-Guðni-01.jpg

Guðni hefur aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk.

Guðna hefur verið lýst sem alþýðlegum og hrokalausum forseta. Hann hjólar með börnin í skólann og bíður í biðröðum verslana eins og aðrir. Hann hefur þó jafnframt haft virðingu embættisins að leiðarljósi. Töluvert hefur verið fjallað um klæðaburð Guðna, þá einkum litríka sokka og buff. En það hefur hann borið til að sýna góðgerðamálum stuðning.

Guðni er giftur Elizu Reid, sem upprunalega er frá Ottawa í Kanada, en þau kynntust á námsárunum í Bretlandi. Eliza hefur lengi starfað í góðgerða- og mannréttindamálum, meðal annars fyrir Alzheimersjúka, SOS barnaþorp og sjálfsvígsforvarnasamtökin Pieta. Saman eiga Guðni og Eliza fjögur börn, en Guðni á einnig uppkomna dóttur úr fyrra sambandi.

Lunkinn í boltanum

„Hann var nokkuð lunkinn í handboltanum,“ segir Patrekur Jóhannesson, bróðir Guðna. Á þeirra æskuárum snerist lífið að stórum hluta um handboltann og Jóhannes faðir þeirra studdi þá í því. Patrekur segir að þeir bræður hafi alltaf verið mjög samrýmdir.

04mynf25030712_patrekur02.jpg

Lífið á æskuárunum snerist um handbolta.

Ungir misstu þeir föður sinn úr veikindum og Patrekur segir það hafa verið mjög erfiðan tíma. „Við vorum það heppnir að móðir okkar hélt öllu gangandi og studdi okkur vel. Ég held að það hafi ræst ágætlega úr okkur,“ segir hann.

„Fyrir mér er hann fyrirliði fyrir okkar fjölskyldu. Hann hefur ekkert breyst á þessum fjórum árum og ég er mjög ánægður með hvernig honum hefur tekist til.“

Ekki þurra fræðimannatýpan

„Hann er frábær kennari og hefur sérstakt lag á því að gera flest viðfangsefni mjög áhugaverð. Hann er ekki þessi þurra fræðimannatýpa,“ segir Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur og gítarleikari hljómsveitarinnar HAM. En Guðni var leiðbeinandi Flosa við lokaritgerðarsmíð um þorskastríðin.

flosi.jpg

Guðni var leiðbeinandi Flosa í sagnfræðinni.

Flosi segir engan mun vera á Guðna sem persónu og sem forseta. „Hann er bæði alþýðlegur og kumpánlegur og brýtur niður alla veggi á milli fólks.“

Kom það Flosa ekki á óvart þegar Guðni tilkynnti um framboð sitt til forseta. „Mér fannst hann líklegur um leið og umræðan hófst.“