Olga Björt Þórðardóttir, ritstjóri Hafnfirðings, segir að Guðni Th. Jóhannesson forseti hafi með einkaskilaboðum til hennar á Facebook átt ríkan þátt í að hún hætti við áform um að taka eigið líf.

Í september árið 2020 sótti Olga Björt um starf hjá forsetaembættinu en fékk ekki. Að loknu ferli sendi embættið henni póst um að annar starfsmaður hefði verið ráðinn. Olga Björt þekkti til þeirrar sem ráðin var og sendi svarpóst með hamingjuóskum til skrifstofu embættisins um að þau hefðu valið hæfustu manneskjuna.

Eigi að síður var andlegt ástand hennar þannig á þessum tíma að hún var djúpt sokkin í þunglyndi og ætlaði að stytta sér aldur.Degi síðar fékk Olga Björt óvæntustu einkaskilaboð sem hún hefur nokkru sinni fengið á Facebook. Guðni forseti hafði skrifað að hann vildi þakka henni stórmennskuna sem ekki væri öllum gefin með ósk um gott gengi. Hún brast í grát.„Við þetta losnaði um eitthvað hjá mér,“ segir Olga Björt sem einnig fékk mjög góða hjálp hjá vinkonu sinni.

„Þetta svar veitti mér von um að einhver væri að taka eftir, einhver sem ekki væri í mínum innsta hring.Þunglyndi er nefnilega þannig að máttur hróssins getur orðið gríðarmikill. Við mættum kannski öll oftar segja það sem við hugsum þegar við erum jákvæð.“

Hún biður forsetann að fyrirgefa sér að opinbera skilaboðin frá honum. „En ég geri það fyrst og fremst til að sýna fram á hve auðveldlega eitt hrós og hlýja geta bjargað fólki. Pósturinn sýnir líka hversu einstök manneskja og mannvinur Guðni er,“ segir Olga Björt, sem nú er komin á góðan stað með hjálp lyfja og viðeigandi aðstoðar.