„Svo gerist það bara um miðja nótt þegar við erum að sigla yfir í Breiðafjörð að það berst ósk um aðstoð frá frystitogara á Halanum. Þá var ekki um neitt annað að ræða en að halda þangað samstundis og koma þeim til bjargar. Togarinn var alveg þarna við ísröndina þannig að það var gott að Freyja gat haldið þangað á svipstundu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem var staddur um borð í varðskipinu Freyju aðfaranótt sunnudags þegar útkall barst um vélarvana frystitogara fimmtíu sjómílur norð- norðvestur af Straumnesi.

Varðskipið Freyja var þá á leið frá Grundarfirði til Patreksfjarðar með forseta, bílstjóra forseta og fulltrúa Landhelgisgæslunnar innanborðs, en fyrirhugað var að þeir myndu sækja athöfn á Patreksfirði til minningar um að fjörutíu ár eru liðin frá því að krapaflóð féll á fjörðinn. Útkallið hafi hins vegar orðið til þess að hann hafi missti af minningarathöfninni.

Aðspurður hvort einhver beygur hafi verið í honum vegna aðgerðanna segir Guðni svo ekki hafa verið.

„Það var aldrei nein stórhætta á ferðum, en hins vegar var það þannig að ísröndin færðist sífellt nær togaranum og hann var með trollið úti og allar vélar úti líka. Hefðu björgunaraðgerðir komið aðeins seinna þá hefði togarinn allt eins verið kominn inn í íshrönglið og þá hefði allt orðið mun erfiðara,“ segir Guðni.

Guðni segir það magnað að hafa orðið vitni að þeim aðgerðum sem þarna hafi átt sér stað, bæði hjá liðsmönnum Landhelgisgæslunnar sem og áhöfninni á Hrafni Sveinbjarnarsyni.
Mynd/Guðmundur St. Valdimasson

Að sögn Guðna voru fyrstu viðbrögð áhafnar varðskipsins að senda bæði loftpressu og rafstöðvar yfir í togarann, þar sem áhöfnin á togaranum höfðu verið í dágóða stund án hita og ljóss. Það hafi hins vegar ekki orðið til þess að togarinn kæmist í gang líkt og vonir höfðu staðið til.

„Þá urðu þeir að skera á trollið og voru teknir í tog og varðskipið dró þá svo. Þetta tók svona tæplega klukkutíma, með togarann í eftirdragi. Í kjölfarið tókst þeim að koma vélunum í gang. Það hefur kannski verið í allt tveir til þrír tímar sem Freyja var á Halamiðum með Hrafn Sveinbjarnarson í nánd,“ segir Guðni.

Guðni segir það magnað að hafa orðið vitni að þeim aðgerðum sem þarna hafi átt sér stað, bæði hjá liðsmönnum Landhelgisgæslunnar sem og áhöfninni á Hrafni Sveinbjarnarsyni.
„Ég var fullur aðdáunar á öllum þessum vinnubrögðum. Það var greinilegt að áhöfnin á Freyju er mjög þjálfuð og fær um að takast á við hvers kyns áskoranir,“ segir hann.

Þrátt fyrir að hafa verið staddur á varðskipi segir Guðni ýmislegt hafa verið hægt að gera sér til dægrastyttingar. Til að mynda hafi hann horft á leik Íslands og Brasilíu í milliriðli á HM í handbolta .

„Ég var virkilega stoltur og ánægður. Menn sýndu þann styrk sem þurfti til þess að vinna þann leik. Svo kemur bara mót eftir þetta mót og liðið er á góðum stað. Bestu leikmennirnir eru á góðum aldri og við þurfum bara að ná öllum heilum og dreifa álaginu og þá gerast ævintýrin,“ segir hann.