Guðni Th. Jóhannesson er endurkjörinn forseti Íslands með 92,2 prósent atkvæða. Lokaniðurstöður lágu fyrir í morgun þegar búið var að telja öll atkvæði í Suðvesturkjördæmi.

Kjörsókn var 66,9 prósent; 168.821 greiddu atkvæði en 252.267 eru á kjörskrá.

Guðni Th. Jóhannesson fékk 150.913 atkvæði og mótframbjóðandinn hans, Guðmundur Franklín Jónsson, fékk 12.797 atkvæði en 5.111 seðlar (3 prósent) voru auðir eða ógildir.

Guð­mundur Frank­lín óskaði Guðna og fjöl­skyldu hans til hamingju með for­seta­kosningarnar í gærkvöldi þegar staðfest var að Guðni myndi sigra.

Guðni ræddi við RÚV seint í gærkvöldi þegar stórsigur hans lá í augum uppi en þetta er í fyrsta sinn sem forseti fær mótframboð eftir fyrsta kjörtímabil sitt.

„Vissulega hefur sagan verið á þá leið að forsetar fyrr á tíð fengu að sitja, við skulum segja, óáreittir uns þeim fannst kominn tími til að nýr forseti tæki við,“ sagði Guðni.

Hann sagðist hann hafa gengið til kosninga bjartsýnn og kappsamur.

„Ég þótt­ist viss um það að sá stuðning­ur, sú vel­vild og sá hlýhug­ur sem ég hef notið und­an­far­in fjög­ur ár hyrfi ekki á svip­stundu þegar drægi að for­seta­kjöri.“