Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, hyggst gefa kost á sér á lista Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári. Hann segist setja stefnuna á eitt af efstu sætunum í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna.

„Mannréttinda-, mennta- og velferðarmál eru mér hugleikin, málefni frelsissviptra og þeirra sem þeim tengjast; málefni fatlaðra og öryrkja og allra þeirra sem þarfnast sérstakrar aðstoðar, sem byggi á mannúð og virðingu,“ segir hann í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann tilkynnir framboðið.

Hvattur til að bjóða sig fram

Guðmundur hefur lengi látið til sín taka í réttindamálum fanga og greindi frá því í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í ágúst að hann myndi íhuga þing­fram­boð ef lög­gjafinn færi ekki að taka hressi­lega við sér í fangelsis­málum. Hann segir að ýmsir hafi sett sig í samband við hann í kjölfar ummælanna og hvatt hann til þess að láta af framboðinu verða.

Guðmundur hefur verið opinskár um reynslu sína af fangelsiskerfinu en hann losnaði úr ökklabandi þann 1. ágúst síðastliðinn og tók þá sín fyrstu skref sem frjáls maður eftir að hafa eytt drjúgum hluta síðustu tuttugu ára í fangelsi.

„Ég tel mig vera góðan valkost fyrir stjórnmálaflokk sem vill vinna með mér og mun að sjálfsögðu starfa með þeim flokki sem ég tel að ég muni hafa mest áhrif á velferð og fangelsismál. Ég þarf náttúrlega bara að meta það hvaða flokkur yrði helst fyrir valinu og hugsa þetta út frá velferðar- og fangelsismálum,“ sagði Guðmundur við Fréttablaðið í ágúst en hann hefur fram að þessu ekki viljað opinbera hvaða flokkur yrði helst fyrir valinu.

Sérstök uppstillinganefnd raðar frambjóðendum á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hefst könnun í næstu viku þar sem flokksfélagar eru beðnir um að merkja við þá frambjóðendur sem þeim hugnast best og reyna þannig að hafa áhrif á val nefndarinnar.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til framboðs fyrir Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum. Undanfarin ár hef ég...

Posted by Guðmundur Ingi Þóroddsson on Thursday, December 10, 2020