Guðmundur Felix Grétarsson, sem gekkst undir aðgerð í gær þar sem græddar voru á hann axlir og hendur, er vaknaður og ber sig vel að sögn Guðmundar Felix Felixsonar föður hans. Þetta er í fyrsta sinn sem slík aðgerð er framkvæmd í heiminum.
Í samtali við Fréttablaðið sagði faðir hans að Guðmundur hefði hringt í eiginkonu sína og móður í morgun en hann er nú á gjörgæslu og verður þar næstu daga.
Aðgerðin, sem fór fram í Lyon í Frakklandi, tók um fjórtán tíma og var afar flókin. Alls tóku um 50 læknar og hjúkrunarfræðingar þátt í henni að sögn Diljár Guðmundsdóttur dóttur Guðmundar. Eitt teymi lækna sá um að fjarlægja hendur af gjafa og annað um að græða þær á Guðmund Felix.
Fram að þessu hefur þetta verið framar öllum vonum.
„Fram að þessu hefur þetta verið framar öllum vonum, bæði aðgerðin og ekki reiknuðum við með að hann myndi vakna svona fljótt,“ segir faðir Guðmundar. Allt hafi gengið mun hraðar fyrir sig en gert var ráð fyrir og Guðmundur vaknað fyrr en áætlað var. Nú dvelur hann á gjörgæslu meðan sárin gróa og liggur þar í sérsmíðuðu rúmi að sögn föður hans.
Missti hendurnar í vinnuslysi
Guðmundur Felix missti báðar hendurnar í vinnuslysi árið 1998 er hann starfaði sem rafvirki. Hann flutti til Frakklands árið 2013 og beðið þess í átta ár að fá græddar á sig nýjar hendur. Móðir hans hefur dvalið þar með honum síðustu ár en þar kynntist hann eiginkonu sinni, Sylwiu Gretarsson Nowakowska.