Guð­mundur Stein­gríms­son, tón­listar­maður, rit­höfundur og fyrr­verandi Al­þingis­maður, var gestur Sig­mundar Ernis í nýjasta þætti Manna­máls sem sýndur var á Hring­braut á fimmtu­dag.

Farið var um víðan völl í við­talinu enda Guð­mundur gengið í gegnum ýmis­legt. Um tíma var hann afar á­berandi í ís­lenskri pólitík, var vara­þing­maður Sam­fylkingarinnar rétt fyrir hrun, skipti svo yfir í Fram­sóknar­flokkinn árið 2009 en stofnaði síðan Bjarta Fram­tíð árið 2012 og sat á þingi frá 2013-2016 fyrir þann flokk.

Guð­mundur á ekki langt að sækja pólitíkina en faðir hans, Stein­grímur Her­manns­son, var for­sætis­ráð­herra og for­maður Fram­sóknar­flokksins um ára­bil. Guð­mundur segir föður sinn hafa átt stóran þátt í flokka­skiptum hans yfir í Fram­sókn.

Rann blóðið til skyldunnar

Um á­stæðuna að baki þeirri á­kvörðun sinni að yfir­gefa Sam­fylkinguna og ganga til liðs við Fram­sóknar­flokkinn sagði Guð­mundur þetta:

„Ég hef alltaf fyrst og fremst litið á mig sem frjáls­lyndan græningja. Það er á­kveðin arf­leið í Fram­sóknar­flokknum. Pabbi til dæmis eigin­lega bara upp á sitt eins­dæmi stofnaði um­hverfis­ráðu­neytið á sínum tíma, Fram­sóknar­flokkurinn á þá sögu og það er sterkur um­hverfis­verndar­þráður þar.“

Hann hélt á­fram: „Kannski rann mér á ein­hvern hátt blóðið til skyldunnar. Við pabbi náðum býsna vel saman í þessu verk­efni og skil­greindum þetta fyrir okkur að það væri þess virði að reyna að endur­reisa þennan flokk sem var þarna á hliðinni,“ sagði Guð­mundur.

Hann sagði föður sinn hafa sagt Fram­sóknar­flokkinn hafa verið kominn á villi­götur á þessum tíma.

„Þetta var svo­lítið magnaður tími fyrir okkur, mig og pabba, að finna þennan sam­hljóm. Við vorum ekkert alltaf sam­mála en þarna vorum við sam­mála, sér­stak­lega í um­hverfis­málum. Þarna fer ég inn og ætla mér að taka þátt í þessari endur­reisn á flokknum,“ sagði Guð­mundur enn fremur.

Ó­sætti við Sig­mund og nýjar á­skoranir

Fljót­lega áttaði Guð­mundur sig þó á að hann átti enga sam­leið með nýjum for­manni Fram­sóknar­flokksins: „Það er auð­vitað annar maður sem tekur við stjórninni á flokknum og við erum ekki sam­mála. Það er Sig­mundur Davíð. Það kemur bara í ljós á tveimur árum að við eigum enga hug­mynda­fræði­lega sam­leið,“ sagði Guð­mundur.

Á milli þeirra hafi orðið miklir á­rekstrar: „Strax frá fyrstu mínútu. Rifumst eins og hundur og köttur og töluðumst varla við. Það eru ekki heil­brigð sam­skipti,“ sagði Guð­mundur jafn­framt.

Fram­sókn fór í aðra átt en Guð­mundur sá fyrir sér: „Ég vil vera í pólitík með fólki sem ég er að mestu leyti sam­mála og á sam­leið með, það er engum greiði gerður með ein­hverju öðru.“

Hann sagði sig úr flokknum og kláraði kjör­tíma­bilið sem þing­maður utan flokka.

Árið 2012 fór hann í við­tal í Kast­ljósi og sagði að það þyrfti að stofna nýjan stjórn­mála­flokk. Þar með má segja að grunnurinn hafi verið lagður að Bjartri fram­tíð.

Á sama tíma hafi Besti flokkurinn, hugar­smíð Jóns Gnarr, í­hugað fram­boð á lands­vísu eftir að hafa unnið stór­sigur í síðustu borgar­stjórnar­kosningum.

For­svars­menn Besta flokksins og Bjartrar fram­tíðar hafi því á­kveðið að setjast niður saman og ræða saman. Um Bjarta Fram­tíð segir Guð­mundur: „Það var býsna mikill með­byr til skamms tíma en það hélt ekki lengi.“

Erfitt að yfir­gefa Fram­sóknar­flokkinn

Að­spurður hvort það hafi ekki verið þungt skref að yfir­gefa Fram­sókn eftir allt sem á hafði gengið í bæði lífi hans og föður hans sagði Guð­mundur: „Jú, vissu­lega. En það er svo mikil­vægt að átta sig á því hvað maður getur ekki gert. Það er ekki hægt að vera í þing­flokki þar sem maður er bara ekki sam­mála neinum.“

Guð­mundur segir Fram­sóknar­flokkinn eiga sér svo langa sögu að hann geti skil­greint sig á marga vegu eftir því á hvaða tíma­bil sögunnar er litið. Allt frá grænum um­hverfis­verndar­flokki yfir í borgara­legt í­hald.

Hann segir Sig­mund Davíð þó ekki hafa „rænt“ Fram­sóknar­flokknum: „Nei, nei. Hann var náttúru­lega lýð­ræðis­lega kjörinn og fór með flokkinn í þá átt sem hann vildi fara í.“

Honum þykir þó mun meira til Sigurðar Inga koma: „Ég tel að flokkurinn sé miklu betur settur undir hans stjórn.“

Hug­mynda­fræði­lega segir Guð­mundur þó að hann eigi ekki sam­leið með Fram­sóknar­flokknum.

Skortur á inn­viðum helsta mein nýrra flokka

Eins og greint var frá hér að ofan sagði Guð­mundur að með­byr Bjartrar fram­tíðar hafi verið skamm­vinnur. Flokkurinn þurrkaðist út eftir Al­þingis­kosningarnar árið 2017, eftir að hafa slitið ríkis­stjórnar­sam­starfi þeirra, Við­reisnar og Sjálf­stæðis­flokks fyrr um haustið.

Þá hafði Guð­mundur nú þegar skilið við flokkinn og átti því engan þátt í þeirri at­burða­rás. Hann segir litla og nýja flokka oft líða fyrir skort á inn­viðum:

„Það er oft erfitt með nýja flokka að það eru ekki inn­viðir til að takast á við innri deilur og deildar meiningar. Það eru þær, deilurnar innan flokkanna, sem eru erfiðastar. Þær geta verið ein­stak­lega sárs­auka­fullar og erfiðar í nýjum flokkum þar sem ferlarnir og stofnanirnar eru ekki til staðar til þess að takast á við þetta,“ sagði Guð­mundur.

Mannamál er á dagskrá á Hringbraut alla fimmtudaga kl. 19:30 og endursýndur kl. 21:00.