Guð­­mundur Felix Grétars­­son er allur að koma til eftir handa­á­græðslu sem hann gekkst undir í Lyon fyrir rúmum mánuði síðan. Í dag sýndi hann fylgj­endum sínum nýju hendurnar og sagðist ekki hafa liðið jafn vel í langan tíma.

„Eins og þið sjáið þá stend ég og ég verð betri og betri með hverjum deginum,“ sagði Guð­mundur brosandi. Hann út­skýrði að nauð­syn­legt væri að halda hand­leggjunum uppi með ólum þar sem hand­leggirnir séu mjög þungir og geti því ekki hangið á saumunum einum saman. Hann bætti við að hann væri ansi sáttur með nýjustu út­færslu ólanna.

Saumarnir misfríðir

„Mig langaði líka að sýna ykkur örin mín, lita­munurinn hérna er frekar skrítinn en það er vegna þess að það var smá blæðing hérna undir,“ segir Guð­mundur um lita­muninn sem er á nýju og gömlu húðinni.

Saumarnir eru að mati Guð­mundar ekki jafn myndar­legir að aftan. „Þetta er smá Franken­stein hérna, en þetta mun allt verða betra með tímanum.“ Með tímanum verði einnig hægt að fá lýta­lækni til að lappa upp á svæðið í kringum saumana.

Guðmundur sýnir muninn á saumunum.
Mynd/Skjáskot

Ný húð að myndast

Guð­mundur bendir einnig á að húðina á nýju höndunum sé mjög þurr en það sé vegna þess að húðin breytist yfir­leitt þegar um í­græðslur er að ræða. „Þarna undir er mjög mjúk og ný húð.“

Hann er dug­legur að bera á sig hand­á­burð og kveðst ætla að kalla í móður sína bráð­lega til að snyrta á sér neglurnar. „Hún er best í því.“

Guð­mundur greinir síðan frá því að endur­hæfing hans, sem átti að hefjast á mánu­daginn, hafi verið frestað. Hann þurfi að vera á spítalanum á fimmtu­daginn til að gangast undir smá­vægi­lega að­gerð og því muni endur­hæfingin ekki hefjast fyrr en fyrsta mars næst­komandi.

Vinkar í sólinni

Þrátt fyrir það er Guð­mundur ansi hress og fór hann í fyrsta skipti út eftir að­gerðina í dag og fékk loks að njóta vorsins. „Þetta er full­kominn tími til að hefja nýja lífið og endur­hæfinguna,“ segir hann brosandi.

Á göngu sinni í dag hafi hann einnig geta spreytt sig í því að vinka, sem hann endur­tekur fyrir mynda­vélina. „Það eru engin frekari vanda­mál og sárs­aukinn er að mestu leyti farinn.“ Hann þurfi ekki lengur að taka mikið af verkja­lyfjum. „Ég verð svo­lítið þreyttur í öxlunum en það er nokkurn veginn allt og sumt.“