Guðmundur Felix Grétarsson er allur að koma til eftir handaágræðslu sem hann gekkst undir í Lyon fyrir rúmum mánuði síðan. Í dag sýndi hann fylgjendum sínum nýju hendurnar og sagðist ekki hafa liðið jafn vel í langan tíma.
„Eins og þið sjáið þá stend ég og ég verð betri og betri með hverjum deginum,“ sagði Guðmundur brosandi. Hann útskýrði að nauðsynlegt væri að halda handleggjunum uppi með ólum þar sem handleggirnir séu mjög þungir og geti því ekki hangið á saumunum einum saman. Hann bætti við að hann væri ansi sáttur með nýjustu útfærslu ólanna.
Saumarnir misfríðir
„Mig langaði líka að sýna ykkur örin mín, litamunurinn hérna er frekar skrítinn en það er vegna þess að það var smá blæðing hérna undir,“ segir Guðmundur um litamuninn sem er á nýju og gömlu húðinni.
Saumarnir eru að mati Guðmundar ekki jafn myndarlegir að aftan. „Þetta er smá Frankenstein hérna, en þetta mun allt verða betra með tímanum.“ Með tímanum verði einnig hægt að fá lýtalækni til að lappa upp á svæðið í kringum saumana.

Ný húð að myndast
Guðmundur bendir einnig á að húðina á nýju höndunum sé mjög þurr en það sé vegna þess að húðin breytist yfirleitt þegar um ígræðslur er að ræða. „Þarna undir er mjög mjúk og ný húð.“
Hann er duglegur að bera á sig handáburð og kveðst ætla að kalla í móður sína bráðlega til að snyrta á sér neglurnar. „Hún er best í því.“
Guðmundur greinir síðan frá því að endurhæfing hans, sem átti að hefjast á mánudaginn, hafi verið frestað. Hann þurfi að vera á spítalanum á fimmtudaginn til að gangast undir smávægilega aðgerð og því muni endurhæfingin ekki hefjast fyrr en fyrsta mars næstkomandi.
Vinkar í sólinni
Þrátt fyrir það er Guðmundur ansi hress og fór hann í fyrsta skipti út eftir aðgerðina í dag og fékk loks að njóta vorsins. „Þetta er fullkominn tími til að hefja nýja lífið og endurhæfinguna,“ segir hann brosandi.
Á göngu sinni í dag hafi hann einnig geta spreytt sig í því að vinka, sem hann endurtekur fyrir myndavélina. „Það eru engin frekari vandamál og sársaukinn er að mestu leyti farinn.“ Hann þurfi ekki lengur að taka mikið af verkjalyfjum. „Ég verð svolítið þreyttur í öxlunum en það er nokkurn veginn allt og sumt.“