Guðmundur Felix Grétarsson segir að aðgerðin, þar sem á hann voru græddar nýir handleggir og axlir, hafi gengið vel. Hann sendi vinum sínum á Facebook myndbandskveðju af spítalanum í dag þar. Hann virðist mjög hress, að minnsta kosti vantar ekki kímnigáfuna í Guðmund sem segist nú „ekki vera handlangari lengur heldur orðinn handhafi“.

„Þetta gekk allt saman rosalega vel,“ segir Guðmundur. „Ég má ekki sýna þetta strax vegna þess að það eru ákveðnar reglur í gangi og ég þarf að fylgja þeim. En það verður einhver blaðamannafundur í næstu viku.“

Þetta er í fyrsta skipti sem tveir heilir handleggir eru græddir á sjúkling. Guðmundur missti báða handleggi í vinnuslysi árið 1998.

„Mig langaði til að þakka öllum fyrir. Það er víst búið að vera rosalega mikið af kveðjum og heillaóskum. Þannig að bara þakka ykkur kærlega fyrir allan stuðninginn.“

Posted by Felix Gretarsson - Coaching on Saturday, 16 January 2021