Forval Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi fer nú fram en um er að ræða þriðja forvalið hjá VG fyrir alþingiskosningarnar í haust. Níu frambjóðendur taka þátt í forvalinu, þar af þrír sem stefna á fyrsta sætið.
Kosningu lýkur á morgun en í hádeginu höfðu 34 prósent kosið í forvalinu af þeim tæplega 1700 sem eru á kjörskrá. Niðurstöður forvalsins verða síðan kynntar annað kvöld.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindarráðherra, Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og alþingismaður, og Una Hildardóttir, upplýsingafulltrúi og varaþingmaður, keppast um að leiða lista hreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi en Una sækist eftir fyrsta eða öðru sæti. Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi þingkona og ráðherra, sækist einnig eftir öðru sæti.
Nú liggja fyrir niðurstöður í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi en í Norðausturkjördæmi er það Óli Halldórsson, oddviti Vinstri græna í Norðurþingi, sem leiðir listan og í Suðurkjördæmi leiðir Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri og formaður VG á Suðurnesjum, listann.
Frambjóðendur Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi:
Bjarki Bjarnason, rithöfundur og forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. 4. – 5. sæti.
Einar Bergmundur Þorgerðar- og Bóasarson, hugbúnaðarsérfræðingur. 3. – 5. sæti.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og umhverfisfræðingur. 1. sæti.
Júlíus Andri Þórðarson, stuðningsfulltrúi og háskólanemi. 4. sæti.
Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi alþingismaður og ráðherra. 2. sæti.
Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og alþingismaður. 1. sæti.
Una Hildardóttir, upplýsingafulltrúi og varaþingmaður. 1. – 2. sæti.
Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, þjóðfræðinemi. 3. sæti.
Þóra Elfa Björnsson, setjari og framhaldsskólakennari. 3. – 5. sæti.