„Kæran til Mannréttindadómstóls Evrópu er á lokametrunum,“ segir Guðmundur Gunnarsson, sem í félagi við Magnús Daða Norðdahl kærir framkvæmd alþingiskosninga síðastliðið haust til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE).

Guðmundur var þingmaður Viðreisnar um stund eftir fyrri talningu atkvæða í kosningunum. Brestir urðu við talningu í Norðvesturkjördæmi og var endurtalið. Hringekja jöfnunarmanna fór af stað þar sem sumir duttu út en aðrir fengu þingsæti sem þeir höfðu ekki haft eftir fyrri talningu. Mikilli rannsókn undirbúningskjörnefndar Alþingis var hrundið af stað sem tafði myndun ríkisstjórnar. Niðurstaðan varð að síðari talningin gilti og telur Guðmundur þau málalok óviðunandi.

Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður rekur málið fyrir MDE fyrir hönd Guðmundar og Magnúsar Daða. Karl Gauti Hjaltason, sem kærði kosningarnar til lögreglu, segist ekki hafa tekið ákvörðun hvort hann kæri til MDE.

„Stóra málið er sá galli á kerfinu að þingmenn taki sjálfir ákvarðanir um eigin kjör,“ segir Guðmundur. „Það eru brestir í kerfinu okkar og það er brýnt að MDE svari hvort hægt sé að vera dómari í eigin sök. Við teljum niðurstöðuna brjóta í bága við mannréttindsamáttmálann sem við Íslendingar erum aðilar að,“ bætir hann við.

magnús norðdahl.jpg

Magnús Daði Norðdahl Pírati.