Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, býður sig fram í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Borgarfulltrúarnir Skúli Helgason og Hjálmar Sveinsson hafa einnig boðið sig fram í þriðja sætið.

Líklegt er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verði í efsta sæti listans og Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins, verði í öðru sæti.

Skúli er nú þegar í þriðja sætinu og vill halda því.

„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til endurkjörs og óska eftir stuðningi til að skipa áfram 3. sætið á listanum. Ég legg fram reynslu mína, þekkingu og brennandi áhuga á menntun og velferð barna og ungmenna að ógleymdum grænum áherslum í skipulagi, atvinnumálum og samgöngum,“ segir í yfirlýsingu hans frá því í morgun.

Hjálmar skipaði fimmta sæti í síðustu kosningum.

„Mitt erindi í borgarpólitíkinni hefur alltaf verið skýrt. Ég hef einkum starfað að umhverfis- og skipulagsmálum og í menningarmálum. Þegar ég var formaður umhverfis- og skipulagsráðs beitti ég mér fyrir þéttari og mannvænni byggð, betri hjólastígum, göngugötum og hægari bílaumferð. Með þeim árangri að þar sem áður voru endalaus bílaplön, úr sér gengnar atvinnulóðir og veghelgunarsvæði, rísa núna þúsundir íbúða, falleg torg og nytsamleg útisvæði,“ segir í yfirlýsingu hans.

Tjáð að sætið væri frátekið

Guðmundur Ingi sóttist eftir því að komast á þing en óvissa var um kjörgengi hans vegna þess að hann var á reynslutíma að lokinni afplánun í fangelsi.

„Ég hef verið óviss og óttast að það sama myndi gerast ef ég ákveði að bjóða fram krafta mína á sveitarstjórnarstiginu, það er að segja að mér myndi ganga vel í prófkjörinu eingöngu til þess að vera kippt út á síðustu stundu. Það er mikill undirbúningur að baki slíku verkefni og ótrúlega margar klukkustundir af sjálfboðavinnu fjölda fólks. Ég vil ekki leggja slíkt á félaga mína og því hef ég legið lengi undir feldi,“ segir hann í yfirlýsingu á Facebook í morgun.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að fyrir á fleti eru sterkir kandídatar og barist verður um sætið. Mér hefur meira að segja verið tjáð að sætið sé frátekið fyrir aðra frambjóðendur. En ég mun ekki velta mér upp úr því, ég mun kynna fyrir hvað ég stend, þau mál sem ég brenn fyrir og þekki vel. Ég tel mig eiga góðan möguleika á þriðja sætinu enda er ávallt þörf fyrir endurnýjun í stjórnmálum, að fá fram sjónarhorn annarra og ég mun koma fram með nýja vinkla.“