Um­hverfis- og auð­lindar­ráð­herra, Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, er með flest atkvæði í fyrsta sæti lista Vinstri hreyfingarinnar græns fram­boðs í Suð­vestur­kjör­dæmi, eða alls 483, og Ólafur Þór Gunnarsson með 361 atkvæði í 1.-2. sætið Una Hildardóttir með 482 atkvæði í 1.-3. sæti

15.-17. apríl fór fram rafrænt forval hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Suðvesturkjördæmi. Valið var í fimm efstu sæti á framboðslista hreyfingarinnar í alþingiskosningunum sem fram fara í haust.

Niðurstaða forvalsins er eftirfarandi:

Guðmundur Ingi Guðbrandsson með 483 atkvæði í 1. sæti

Ólafur Þór Gunnarsson með 361 atkvæði í 1.-2. sætið

Una Hildardóttir með 482 atkvæði í 1.-3. sæti

Kolbrún Halldórsdóttir með 435 atkvæði í 1.-4. sæti

Þóra Elfa Björnsson með 421 atkvæði í 1.-5. sæti

Kosningu lauk í for­vali hreyfingarinnar dag klukkan 17.10 í stað 17 vegna þess að kosninga­síðan lá niðri í sjö mínútur um klukkan hálf fimm. Flokkurinn fékk tvo þing­menn úr kjör­dæminu í síðustu kosningum árið 2017, það voru þau Rósa Björk Brynjólfs­dóttir og Ólafur Þór Gunnars­son. Rósa Björk er ekki lengur í flokknum heldur er í Sam­fylkingunni.

Alls voru 1.699 á kjör­skrá og var kosningaþáttaka 50 prósent. Það tóku alls níu ein­staklingar þátt í for­valinu.

Það voru þau:

Bjarki Bjarna­son, rit­höfundur og for­seti bæjar­stjórnar í Mos­fells­bæ sem sóttist eftir 4. – 5. sæti.

Einar Berg­mundur Þor­gerðar- og Bóasar­son, hug­búnaðar­sér­fræðingur sem sóttist eftir 3. – 5. sæti.

Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra og um­hverfis­fræðingur sem sóttist eftir 1. sæti.

Júlíus Andri Þórðar­son, stuðnings­full­trúi og há­skóla­nemi sem sóttist eftir 4. sæti.

Kol­brún Hall­dórs­dóttir, leik­stjóri og fyrr­verandi al­þingis­maður og ráð­herra sem sóttist eftir 2. sæti.

Ólafur Þór Gunnars­son, læknir og al­þingis­maður sem sóttist eftir 1. sæti.

Una Hildar­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi og vara­þing­maður sem sóttist eftir 1. – 2. sæti.

Val­gerður Blá­klukka Fjölnis­dóttir, þjóð­fræði­nemi sem sóttist eftir 3. sæti.

Þóra Elfa Björns­son, setjari og fram­halds­skóla­kennari sem sóttist eftir 3. – 5. sæti.

Fréttinni hefur verið breytt