Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefði viljað sjá ríki heims setja fram metnaðarfyllri landsmarkmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnunni COP26 í Glasgow til að tryggja framtíð jarðarinnar.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu hans. Þar segir hann jafnframt að hann hefði viljað sjá ríki heims ná að tryggja að fullu 100 milljarða loforðið til þróunarríkja.

Þrátt fyrir að alltaf sé hægt að gera betur bendir Guðmundur Ingi á að samkomulagið sem náðist í Glasgow sé mjög mikilvægt.

„Þegar um 200 ríki ná mikilvægu samkomulagi um stærstu málefni samtímans þá er rík ástæða til að gleðjast,“ segir Guðmundur Ingi í færslunni.

Guðmundur Ingi segist ánægður með að nú viðurkenni öll ríki sérstaklega mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5 gráðum.

„Í fyrsta skipti er í lokaákvörðun loftslagsþingsins talað um að draga skuli úr notkun kola og draga úr niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti, þó orðalagið hafi því miður verið útvatnað talsvert á lokasprettinum.“

Að sögn Guðmundar Inga sé mikilvægt að þróuð ríki ætli nú að tvöfalda framlög til aðlögunar í þróunarríkjum. Síðast ekki síst sé búið að klára útfærslu á Parísarsamningnum.

„Þó lokaniðurstaðan sé málamiðlun þá er hún mjög mikilvægt skref fram á við. Niðurstaðan er í heild sinni mikilvægur áfangi á lengri leið. Enn logar kyndill vonarinnar og hann tökum við með okkur frá Glasgow. Við höfum tækifæri til að klára dæmið og það þarf að gerast hratt bæði á Íslandi sem og annarsstaðar í heiminum,“ segir Guðmundur Ingi í lok færslu sinnar.