Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, leiðir lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í september. Listi flokksins var samþykktur á fundi í Flensborgarskóla fyrr í dag. Guðmundur Ingi sagðist þakklátur fyrir að vera treyst fyrir því að leiða lista hreyfingarinnar á fundinum að því er segir í tilkynningu frá VG.
Una Hildardóttir, varaþingmaður og forseti LUF er í öðru sæti listans og Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og þingmaður er í þriðja sæti. Hann hlaut annað sætið í forvalinu en færist niður um eitt sæti.
Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir þjóðfræðinemi skipar fjórða sæti listans og í því fimmta er Þóra Elfa Björnsson, setjari og framhaldsskólakennari í Kópavogi. Hún er einnig aldursforseti listans.