Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tilkynnir í færslu á Facebook að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram til varaformanns Vinstri grænna á landsfundi flokksins sem fer fram í október.
„Kæru vinir, mig langar að vinna áfram að baráttumálum mínum og annarra umhverfis- og náttúruverndarsinna á vettvangi stjórnmálanna, eins og ég hef gert undanfarin tæp tvö ár, og stuðla að því að grænu málin fái sem mestan sess í íslenskum stjórnmálum. Ég vil koma að því að móta nýja tíma,“ segir Guðmundur í færslunni og tekur fram að hann hafi alla tíð brunnið fyrir umhverfismálum.
Framtíðarsýn samofin umhverfismálum
„Það hefur því verið einstakt að fá tækifæri til að koma á koppinn fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum, vinna að banni á mörgum einnota plastvörum, hefja stórátak í friðlýsingum og auka fjármagn til umhverfismála um 25% á tveimur árum. En það þarf svo sannarlega að gera meira og ég er rétt að byrja,“ segir Guðmundur í færslunni.
Hann segir framtíðarsýn sína vera samofin umhverfismálum og réttlátu og friðsömu samfélagi. „Ég vil að árið 2030 getum við litið til baka og sagt að okkur hafi tekist að takast á við loftslagsvána og það með félagslegt réttlæti og náttúruvernd að leiðarljósi,“ segir í færslunni. Guðmundur segist vilja sjá Ísland þróast og eflast sem land náttúrunnar.