Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í síðustu Alþingiskosningum, segir vilja sinn til að skjóta endurtalningunni í Norðvesturkjördæmi til Mannréttindadómstóls Evrópu ekki snúast um sjálfan sig. Hann segir í færslu á Facebook að slíkt væri ekki tilraun til að „troða sér inn á þing“.

Hann deilir Staksteinum Morgunblaðsins í dag þar sem segir að kæra hans beri merki eiginhagsmunapots þar sem Guðmundur hafi fallið af þingi við endurtalninguna. Guðmundur segir þau skrif vera meðbyr.

„Menn sem hafa búið í sérhagsmunahelli allt sitt líf skilja auðvitað ekki tilganginn með því að gera eitthvað án þess að hagnast á því persónulega. Þeir skilja ekki að einhverjum geti dottið í hug að kalla eftir áliti á því hvort klaufalega sniðinn stakkur lýðræðis á Íslandi standist skoðun. Fyrir okkur öll. Það er ofar þeirra skilningi,“ segir Guðmundur.

„Að skjóta málinu til MDE snýst ekki um að snúa við ákvörðun Alþingis, fari svo að hneykslið verði samþykkt. Það hefur heldur ekkert með það að gera að kærendur reyni að troða sér á þing. Það er misskilningur sem skýrist mögulega af því að höfundur staksteina hafi óvart séð eigin spegilmynd í morgunsárið.“

Holl innsýn í hugarheim

Hann segir að Alþingi muni eiga síðasta orðið. „Ef skandallinn fær að standa þá er það endanlegt. Það þarf enginn að hrútskýra það neitt frekar. Það kunna fleiri að lesa sér til gagns en þeir sem ólust upp við olíulampa,“ segir Guðmundur á Facebook.

„Það er samt mjög hollt að fá innsýn í hugarheim höfundar. Ákveðin stúdía. Færir okkur endanlega staðfestingu á því að við verðum að ýta þessu fleyi úr vör sem fyrst. Armurinn, sem skík rödd tilheyrir, mun aldrei aðhafast neitt án utanaðkomandi yfirhalningar. Það er ekki einu sinni víst að það dugi til því það er ekki eins og þeir hafi lært eitthvað að fyrri yfirhalningum úr sömu átt.“